Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005

Fimmtudaginn 21. október 2004, kl. 12:16:37 (771)


131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[12:16]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. sagði. Ég hygg hins vegar að í sjóflutningum undanfarinna ára hafi aðallega þungaflutningar á vörum eins og frábærar útgerðarvörur frá Sæplasti verið fluttar sjóleiðina, ekki með bílum vegna þess að þetta er rúmfrek vara á t.d. járni til vélsmiðjanna til úrvinnslu og jafnvel á vörunni til baka. Tökum 3X-Stál á Ísafirði sem dæmi. Það er frábært fyrirtæki en um langan veg að flytja.

Hins vegar er allt annað mál með lausavöruna, matvöruna. Það er ósköp eðlilegt að menn vilji geta tekið hana daglega, með daglegum ferðum flutningabíla. Það er kannski mest í fiskflutningum og öðru sem kreppir að. Það eru vikulegar siglingar á meðan bílarnir eru með daglegar ferðir næstum því um allt land. Í því liggur munurinn. Ég þekki það sem gamall kaupmaður að ég gat aldrei notað sjóflutninga. Líka vegna þess að oft og tíðum var verið að flytja of litlar einingar og þrátt fyrir allt hagkvæmara að flytja þær með bíl en sjóleiðina.

Þetta er mjög alvarlegt mál og við höfum stundum rætt það, ég og hv. þm., í samgöngunefnd. Ég er mjög ósáttur við að stjórnvöld skuli ekki koma að málinu og skoða leiðir. Mér finnst það mjög skrýtið og alvarlegt að þegar fyrirtæki í Bolungarvík kaupir eitthvert smotterí af múrblöndu og öðru slíku efni fyrir 21 þús. kr. í kjördæmi hæstv. ráðherra, Sturlu Böðvarssonar, að það kosti 19 þús. kr. að flytja það vestur. Hvað fær ríkissjóður af 19 þús. kr.? Ég segi alveg hiklaust um 8 þús. kr. Það eru strax 4 þús. kr. í virðisaukaskatt sem greiðast til ríkissjóðs og það er þetta sem ég gagnrýni við skattheimtuna.