Áfengisauglýsingar

Fimmtudaginn 21. október 2004, kl. 14:00:54 (790)


131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Áfengisauglýsingar.

[14:00]

Örlygur Hnefill Jónsson (Sf):

Frú forseti. Spakvitur maður sagði: Bakkus er skemmtilegur ferðafélagi en það er ekki hægt að hugsa sér verri fararstjóra. Áfengislög, sem hér hefur verið vitnað til, skýra að hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Við höfum líka nýleg lög um Lýðheilsustöð. Þar er skilgreint helsta hlutverk Lýðheilsustöðvar, að annast áfengis- og vímuvarnir. Hnykkt er á þessu í 6. gr. laganna þar sem segir að hlutverk áfengis- og vímuvarnaráðs sé að efla og styrkja áfengis- og vímuvarnir, sérstaklega meðal barna og ungmenna, og hafa eftirlit með að ákvæðum laga og reglugerða um áfengis- og vímuvarnir sé framfylgt. Þarna er skýrt eftirlitshlutverk með þeim lögum sem verið er að brjóta eins og þingmenn segja.

Þegnar þessa lands vita að þeim ber að fara að lögum. Þegnar þessa lands sjá þegar lög eru brotin með augljósum og lævísum hætti með áfengisauglýsingum. Tvískinnungur í þessum málum er verstur og ólíðandi því að hægri höndin verður að vita hvað sú vinstri gerir.

Frú forseti. Ég tel að það séu bara tveir kostir í stöðunni. Annaðhvort heimila menn áfengisauglýsingar eða menn framfylgja lögunum. Það er enginn millivegur. Sú skylda verður hins vegar aldrei tekin af okkur, að okkur ber að gæta bræðra okkar og systra og ekki síst ungmenna landsins.