Veggjald í Hvalfjarðargöng

Fimmtudaginn 21. október 2004, kl. 17:42:32 (849)


131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[17:42]

Flm. (Guðjón Guðmundsson) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forseta þá lipurð sem hann sýnir okkur varaþingmönnum, en við hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson hverfum af þingi í kvöld og okkur þykir að sjálfsögðu vænt um að fá að mæla fyrir þeim þingmálum sem við höfum lagt fram.

Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um veggjald í Hvalfjarðargöng.

Tillagan sem er á þskj. 75 er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að fella niður eða lækka verulega veggjald í Hvalfjarðargöng.“

Gerð Hvalfjarðarganga sem voru tekin í notkun 11. júlí 1998 var einkaframkvæmd. Veruleg andstaða var við þessa framkvæmd á sínum tíma, ekki síst meðal stjórnmálamanna og fjármálastofnana, auk þess sem almenningur var svona mátulega trúaður á að eitthvert vit væri í þessu. Það er fróðlegt að lesa ræður þingmanna frá þessum tíma þar sem einn segir t.d. að nær væri nú að eyða þessum peningum í menningarstofnanir en þessi Hvalfjarðargöng.

Þeir einstaklingar sem höfðu frumkvæði að þessu verki gáfust ekki upp og héldu ótrauðir áfram að sannfæra þá sem þurfti að sannfæra um ágæti þessa verkefnis. Þessir einstaklingar eiga mikinn heiður skilinn fyrir frumkvæði sitt og dugnað sem leiddi til þess að Hvalfjarðargöng urðu að veruleika, en einstaklega vel tókst til með gerð ganganna og almenn ánægja er með þau þó að trúlega styttist í að þau anni ekki sívaxandi umferð og verður væntanlega innan örfárra ára að ráðast í framkvæmdir til að bæta úr því.

Umferð um göngin hefur aukist jafnt og þétt úr einni milljón bíla fyrsta árið í 1,4 milljónir bíla á ári. Til samanburðar má geta þess að árið áður en göngin voru tekin í notkun fóru 747 þúsund bílar fyrir Hvalfjörð og með Akraborginni. Umferðin hefur því nær tvöfaldast á þessum sex árum.

Það er einkahlutafélagið Spölur sem á og rekur göngin. Eins og fram kemur í þingskjali eiga sex aðilar tæp 88% hlutafjárins í Speli, þ.e. Grundartangahöfn, Sementsverksmiðjan, Íslenska járnblendifélagið, Skilmannahreppur, Vegagerðin og Akraneskaupstaður, en smærri hluthafar eiga rúmlega 12%. Veggjöld hafa staðið undir afborgunum, vöxtum og rekstrarkostnaði ganganna. Á veggjöldin leggst 14% virðisaukaskattur.

Á sex ára afmæli ganganna 11. júlí síðastliðinn höfðu um 7,1 milljón bíla farið um göngin. Þá höfðu bíleigendur greitt rúmlega 5 milljarða króna í veggjöld að viðbættum rúmlega 700 milljónum í virðisaukaskatt.

Þegar göngin voru gerð var felldur niður virðisaukaskattur af framkvæmdinni upp á 937,6 millj. kr. Það styttist því óðum í að virðisaukaskattur af veggjöldunum nái þeirri upphæð sem felld var niður og finnst mér að sjálfsögðu fráleitt að halda áfram skattlagningu á veggjöldin þegar því marki er náð.

30. júní síðastliðinn námu langtímalán Spalar ehf., sem á og rekur göngin, 5.353 millj. kr. Þar af var skuld við ríkissjóð 2.250 millj. kr. en sú skuld er þannig til komin að ríkið lánaði Speli 1.300 millj. kr. til framkvæmdanna sem með verðbótum og vöxtum stendur í 2.250 millj. kr. Ríkið lagði ekkert í gerð Hvalfjarðarganga en sá hins vegar um vegagerð að göngunum sem kostaði, ef ég man rétt, 700–800 millj. kr.

Þegar göngin voru gerð lá fyrir að ráðast yrði í mjög kostnaðarsamar endurbætur á Vesturlandsvegi sem farinn var að gefa sig vegna mikillar umferðar. Þá voru ýmsar upphæðir nefndar um kostnað sem af því hlytist. Talað var um að þær endurbætur mundu kosta allt að 2 milljörðum kr. Hafi svo verið hafa Hvalfjarðargöngin strax sparað ríkinu á annan milljarð króna auk þess sem Vesturlandsvegurinn hefði væntanlega þurft enn frekari endurbætur og viðhald á þeim rúmlega sex árum sem liðin eru síðan göngin voru tekin í notkun.

Mér finnst ekki ósanngjarnt að ætlast til þess að ríkið leggi til fjármagn til að lækka verulega og helst fella alveg niður veggjaldið sem notendur ganganna verða að greiða. Það er ekki síst sanngjarnt þar sem ríkið hefur síðan lagt tugi milljarða króna til gangagerðar og annarra stórframkvæmda í vegamálum vítt og breitt um landið.

Ég nefni jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, sem eru álíka löng og Hvalfjarðargöng. Ég nefni göng undir Almannaskarð og það að ákveðið hefur verið að hefja gangagerð milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar sem mun kosta meira en Hvalfjarðargöng. Áður hafði ríkið staðið fyrir gerð Vestfjarðaganga. Einnig hefur á undanförnum árum verið lagt mikið fjármagn í vegagerð, m.a. eru framkvæmdir hafnar við tvöföldun Reykjanesbrautar sem mun kosta 4–5 milljarða kr.

Það er sammerkt með öllum þessum samgöngumannvirkjum að notkun þeirra er gjaldfrí, að Hvalfjarðargöngum einum undanskildum. Það hlýtur að teljast sanngirnismál að landsmenn sitji við sama borð varðandi notkun samgöngumannvirkja. Stór hópur fólks fer daglega um Hvalfjarðargöng fram og til baka, til skóla og vinnu. Það fólk greiðir háar fjárhæðir fyrir notkun ganganna. Þannig greiðir einstaklingur sem fer daglega um göngin til vinnu rúmlega 200 þús. kr. á ári í veggjald. Til að greiða þá upphæð þarf hann að hafa um 350 þús. kr. í tekjur, þegar reiknað er með sköttum og skyldum.

Það kom fram hjá formanni stjórnar Spalar ehf. nýlega að væntanlega þyrfti að innheimta veggjald næstu 12 árin til að greiða upp skuldir fyrirtækisins en 40% þeirra eru við ríkissjóð. Á þessum 12 árum þarf því einstaklingur sem sækir vinnu um Hvalfjarðargöng að þéna a.m.k. 4,2 millj. kr. til að standa undir gangagjöldum á sama tíma og notendur annarra ganga og samgöngumannvirkja greiða ekki eina krónu.

Þannig mun t.d. íbúi Mosfellsbæjar sem vinnur í stóriðjunni á Grundartanga nota 350 þús. kr. af árlegum tekjum sínum til að greiða fyrir notkun Hvalfjarðarganga á sama tíma og íbúi Fáskrúðsfjarðar sem vinnur í stóriðjunni á Reyðarfirði greiðir ekki eina krónu fyrir notkun Fáskrúðsfjarðarganga. Íbúi á Flateyri sem sækir vinnu til Ísafjarðar greiðir ekki eina krónu fyrir notkun Vestfjarðaganga og íbúi á Siglufirði sem sækir vinnu til Dalvíkur mun ekki greiða eina krónu fyrir notkun Siglufjarðarganga. Þá er ekki gert ráð fyrir veggjöldum á Reykjanesbraut þrátt fyrir þá miklu umferð sem þar er og þá miklu fjármuni sem lagðir eru í tvöföldun Reykjanesbrautar.

Í fyrradag kynntu Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi mjög ítarlega og vandaða skýrslu um áhrif Hvalfjarðarganga á búsetuskilyrði og búsetuþróun á Vesturlandi. Skýrslan byggist á rannsókn sem staðið hefur frá haustinu 2002. Verkefnið var fjármagnað af Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Vegagerðinni, samgönguráðuneytinu, Byggðastofnun og Speli ehf. Skýrslan byggist m.a. á umferðarkönnun sem Vegagerðin gerði og víðtækri spurningakönnun á vegum Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri þar sem á níunda hundrað svara bárust.

Samkvæmt skýrslunni er talið ljóst að lífskjör og lífsgæði Vestlendinga hafa batnað með tilkomu Hvalfjarðarganganna en jafnframt sé augljóst að þau mundu aukast enn frekar við lækkun eða niðurfellingu veggjaldsins. Í skýrslunni kemur m.a. fram að marktækar vísbendingar séu um að veggjaldið hafi haldið aftur af hækkun fasteignaverðs og að draga megi þá ályktun að lækkun gjaldsins komi til með að auka virði fasteigna á Vesturlandi. Bent er á að fasteignaverð lækki að jafnaði um 0,31% fyrir hvern kílómetra sem fasteignin fjarlægist höfuðborgarsvæðið. Á grundvelli þess má ætla að fasteignaverð hafi hækkað eða eigi eftir að hækka um 18,6% á Akranesi en 13% annars staðar á Vesturlandi vegna þeirrar vegstyttingar sem Hvalfjarðargöngin höfðu. En gangagjaldið stendur í vegi fyrir því að þessi áhrif komi endanlega fram.

Einnig kemur fram að Vestlendingar spari allnokkuð við sig ferðir um Hvalfjarðargöngin vegna veggjaldsins, m.a. ferðir vegna verslunar, afþreyingar, menningarviðburða og heimsókna til ættingja. 82,3% svarenda í spurningakönnuninni töldu veggjaldið of hátt.

Í skýrslunni er getið um að fram hafi komið í viðtali við starfsmann hjá Fiskmarkaði Íslands að flutningskostnaður hafi ekki lækkað við opnun ganganna vegna hins háa veggjalds. Svo virðist sem að það sé ógæfa notenda Hvalfjarðarganga að gerð þeirra hafi verið einkaframkvæmd. Hefði ríkið gert göngin hefðu þau verið gjaldfrí eins og önnur samgöngumannvirki landsmanna.

Það er óviðunandi fyrir þá sem fara um Hvalfjarðargöng að þurfa einir notenda samgöngumannvirkja hér á landi að greiða gjald í þessi mannvirki. Þess eru mörg dæmi að veggjaldið hafi dregið úr áhuga á og hreinlega komið í veg fyrir að fyrirtæki settu upp starfsemi norðan Hvalfjarðar. Þá má geta þess að allt að 500 manns nota göngin daglega vegna vinnu og skóla.

Forstöðukona Svæðisvinnumiðlunar á Vesturlandi segir mér að gangagjaldið komi í veg fyrir að fólk á atvinnuleysisskrá norðan Hvalfjarðar sæki vinnu sem býðst sunnan fjarðar. Það er því augljóst byggðamál að veggjaldið falli niður eða a.m.k. lækki verulega. Því er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að leita leiða til að fella niður eða a.m.k. lækka verulega veggjaldið í Hvalfjarðargöng. Til þess eru ýmsar leiðir. Ég nefndi hér fyrr í ræðu minni virðisaukaskattinn, ég nefni þær 2.250 millj. kr. sem Spölur ehf. skuldar ríkinu og er væntanlega svipuð upphæð og göngin hafa sparað ríkinu í endurbótum og viðhaldi á Vesturlandsvegi. Loks nefni ég væntanlega sölu Símans sem mun gefa ríkissjóði marga tugi milljarða kr., en rætt hefur verið um að nota hluta söluandvirðisins til samgöngumála. Ekki væri ósanngjarnt að eitthvað af því færi til að rétta hlut þeirra sem nota Hvalfjarðargöng og einir Íslendinga greiða fyrir notkun samgöngumannvirkis.

Herra forseti. Hér er mikið sanngirnismál á ferðinni að mínu áliti. Ég legg til að þessari tillögu verði að lokinni fyrri umræðu vísað til samgöngunefndar.