Umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

Fimmtudaginn 21. október 2004, kl. 19:16:07 (869)


131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

215. mál
[19:16]

Flm. (Örlygur Hnefill Jónsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir þakkir hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar til forseta fyrir þá tillitssemi sem hann sýnir okkur varaþingmönnum og má í leiðinni þakka starfsmönnum þingsins fyrir lipurð sem þeir sýna okkur jafnframt.

Herra forseti. Ég flyt hér lagafrumvarp um breytingu á helstu lagabálkum um fiskveiðistjórn. Það eru lög nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, það eru lög 38/1990, um stjórn fiskveiða, það eru lög nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og það eru lög 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

Tillaga um breytingar á öllum þessum lögum varðar að fella niður lágmarksrefsingu vegna brota á lögunum, reglum settum samkvæmt þeim, viðkomandi lögum, eða leyfisbréfum sem varða nú lágmarkssektum að fjárhæð 400 þús. kr.

Ekki er gerð tillaga um að breyta refsiákvæðum laganna þar sem mælt er fyrir um að brot gegn ákvæðum laganna sjálfra, eins og er í 16. gr. laga 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og 13. gr. laga 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, varði sektum að lágmarki 600 þús. kr. og hámarki 6 milljónir.

Hér hefur hið háa Alþingi mælt fyrir um refsinguna í lögum. Hins vegar er ótækt að mínu mati að hafa lágmarksrefsingar 400 þús. kr. við brotum á reglugerðum eða leyfisbréfum sem sett eru í ráðuneytum og sem hið háa Alþingi skoðar aldrei. Reglugerðir frá sjávarútvegsráðuneytinu sem getið er um á vef Stjórnarráðsins á sviði þessara laga og sjávarútvegslaga, eru 311. Þessar reglugerðir byggja á þeim lögum sem hér er lagt til að breytt verði m.a. og varða brot á reglugerðum þá 400 þús. kr. sekt að lágmarki eins og löggjöfin er nú.

Um ýmsar tegundir reglugerða er þarna að ræða. Nefna má reglugerð um hrognkelsaveiðar og það má nefna reglugerð um ígulkeraveiðar. Hver maður sér það í hendi sér að ef sá sem fæst við ígulkeraveiðar í einhverjum mæli lendir í svona sekt þá efast ég um að mikið verði eftir af ávinningi hans af veiðunum.

Ef litið er til annarra atvinnugreina, t.d. landbúnaðar, sést að ef brot á reglum á sviði landbúnaðar varða í öllum tilvikum 400 þús. kr. lágmarkssekt þá yrði víða þröngt í búi, magnast mundu harðindin og hryggur yrði búandinn þar. Meðalsauðfjárbóndi gæti lent í því að brjóta slíkar reglur í tvígang og þá væri farinn ávinningur búsins í sektir og örlítið í málskostnað.

Refsitæknilega tel ég ótækt að hafa þann hátt á sem nú er viðhafður í fiskveiðistjórnarreglunum. Löggjafinn mælir fyrir um lágmarkssekt en síðan er stöðugt ungað út reglugerðum sem mæla fyrir um alls kyns háttsemi og varða þessi föstu viðurlög, 400 þús. kr.

Ég ítreka að aðrar atvinnugreinar þurfa ekki að búa við þetta. Nefna má lög um flokkun og mat á gærum og ull. Brot á þeim varðar sektum. Svo eru til lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Brot á þeim varðar sektum. En í fiskveiðistjórninni erum við komnir í þessar háu fjárhæðir.

Í 1. gr. hegningarlaganna segir að eigi skuli refsa manni, nema hann hafi gerst sekur um háttsemi, sem refsing er lögð við í lögum, eða má öldungis jafna til hegðunar, sem þar er afbrot talin.

Í fiskveiðistjórnarlögunum er kveðið á um refsingarnar. Háttsemin er ákvörðuð með reglugerðum löngu seinna.

Í 69. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, lögum nr. 33/1944, segir:

„Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Viðurlög mega ekki verða þyngri en heimiluð voru í lögum þá er háttsemin átti sér stað.“

Herra forseti. Ég tel því að andi stjórnarskrárinnar mæli nokkuð gegn þessu, að framgangsmátinn sé sá að sett eru lög með refsiramma og síðan sé framkvæmdarvaldinu heimilt að setja reglugerðir á grundvelli þeirra og þær reglugerðir aldrei bornar undir Alþingi einu sinni.

Það má benda á hegningarlögin og hvernig staðið er að vinnubrögðum þar. Þar er í einstökum greinum laganna mælt fyrir og lýst refsiverðri háttsemi. Síðan er í þeirri sömu grein mælt fyrir um hver refsing sé við viðkomandi háttsemi. Ég hef verið að benda á að hér er skilið á milli viðurlaga og háttsemi.

Eins og framkvæmdin er í þeim lagagreinum sem við flutningsmenn frumvarpsins mælum fyrir að breytt verði þá er í rauninni fyrst ákveðinn í þessum fernum lögum refsirammi frá 400 þús. kr. til 4 milljóna og síðan ákveður framkvæmdarvaldið að setja ótakmarkaðan fjölda reglugerða. Þar eru þá undantekningarlaust lágmarksviðurlög 400 þús. kr.

Mér er til efs, og vil endurtaka það, að þetta standist stjórnarskrá og veit ekki hvaða augum ágætir prófessorar í stjórnskipunarrétti og refsirétti líta þetta.

Ég ítreka það, herra forseti, að gríðarlegur fjöldi reglugerða byggir á þessum fernu lögum. Ef maður fer á vef Stjórnarráðsins þá eru til, eins og ég sagði, samtals 311 reglugerðir á sviði sjávarútvegsmála og engin atvinnugrein ætla ég að búi við annan eins fjölda reglugerða.

Því er alveg ljóst að ef menn lenda í smávægilegum brotum, jafnvel af gáleysi, þá varða þessi brot hinum þungu refsingum sem hér er lagt til að verði felldar niður varðandi lágmarkið. Að óbreyttri löggjöf geta dómstólar ekki hnikað frá lágmarkssektum, 400 þús. kr., og það er með öllu óásættanlegt. Dómstólar eru fullfærir um að skoða þessi brot og meta alvarleika þeirra. Sum geta verið það smávægileg að menn séu dæmdir í 20 þús., 30 þús. eða 40 þús. kr. sekt. Ég ætla ekki að fjalla meira um það. En þá verður búið að opna fyrir þann möguleika dómstóla að þurfa ekki að standa frammi fyrir því að geta ekki hnikað frá 400 þús. kr. lágmarki. Dómsvaldið er ágætlega skipað hér og því er fulltreystandi til að taka á þessum málum.

Herra forseti. Ég vil að lokum fagna þeirri góðu samstöðu sem náðst hefur með flutningi þessa lagafrumvarps. Flutningsmenn þess eru úr öllum þingflokkum. Þar af eru sjö hv. þingmenn sem eiga sæti í sjávarútvegsnefnd og vænti ég þess og trúi að málið fái góðan framgang í nefndinni og á Alþingi enda tel ég að með þessu muni nást ívið meiri sátt um þetta en verið hefur.

Herra forseti. Að lokinni umræðu legg ég til að máli þessu verði vísað til hæstv. sjávarútvegsnefndar.