Húsnæðismál

Fimmtudaginn 04. nóvember 2004, kl. 12:06:25 (995)


131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[12:06]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um breytingar á lögum um húsnæðismál. Í því frumvarpi sem hér er til umræðu felst að lánshlutfall almennra íbúðalána mun hækka í allt að 90% af verðgildi eignar að ákveðnu hámarki.

Hér verður lögfest, ef allt gengur að óskum, eitt af stærri kosningaloforðum á síðari árum, vil ég meina, sem Framsóknarflokkurinn beitti sér fyrir í aðdraganda síðustu kosninga. Á flestum þeim fundum sem frambjóðendur flokksins héldu kom fram að stefnan væri að hækka lánshlutfall almennra íbúðalána í allt að 90% af verðgildi eignar, að ákveðnu hámarki. Auk þess, og ekki síst, yrði húsnæðislánakerfið tekið til endurskoðunar með það að markmiði að lækka vexti og greiðslubyrði íslenskra heimila af húsnæðislánum.

Hæstv. félagsmálaráðherra Árni Magnússon hefur fylgt þessu stefnumáli myndarlega úr hlaði. Strax að afloknum síðustu kosningum setti hann af stað mikla og vandaða vinnu við endurskipulagningu á fyrirkomulagi húsnæðislána, sem afgreidd var hér á síðasta þingi og við þekkjum sérstaklega vel sem þá sátum í félagsmálanefnd þingsins. Sú kerfisbreyting sem þá átti sér stað, að afnema húsbréfakerfið og taka upp íbúðalánakerfi, var forsendan fyrir því frumvarpi sem hér er lagt fram. Það var forsendan fyrir 90% húsnæðislánunum.

Við horfum á þá þróun sem hefur átt sér stað síðan kerfisbreytingin var lögfest, að vextir hafa nú lækkað úr 5,1% í 4,3%. (Gripið fram í.) Því er hér um mjög mikla kjarabót að ræða fyrir íslensk heimili og ég er viss um að hv. formaður Samfylkingarinnar er sammála okkur framsóknarmönnum um að um gríðarlegt framfaramál er að ræða og trúlega eina mestu kjarabót sem íslenskar fjölskyldur og íslensk heimili hafa fengið á síðari árum.

Ef við hugum að heildarskuldum íslenskra heimila þá getum við gert ráð fyrir því að þær séu á bilinu 800–900 milljarðar kr. Ef við gefum okkur að vextir af húsnæðislánum og jafnvel öðrum neyslulánum hafi lækkað um 1% á þessum stutta tíma, eða allt að því, þá erum við að tala um 6–8 milljarða kr. lægri greiðslubyrði íslenskra heimila vegna lána sem fjölskyldurnar hafa þurft að taka til að koma sér þaki yfir höfuðið. 6–8 milljarðar kr. eru mjög miklir peningar og munar um minna í bókhaldi heimilanna. Ef við leggjum saman vaxtabætur og barnabætur þá reiknast mér til að ríkið verji samanlagt um 9 milljörðum kr. til þeirra mála. Þannig skiptir 6–8 milljarðar kr. lægri greiðslubyrði heimilanna gríðarlega miklu máli og er mikil kjarabót.

Í kjölfar kerfisbreytinga sem við samþykktum á síðasta þingi hefur hafist gríðarleg samkeppni á húsnæðislánamarkaðnum, sem ég fagna verulega. Bankarnir sem áður fyrr treystu sér ekki til þess að lána til húsnæðiskaupa á vöxtum undir 5,1% eru farnir að bjóða vexti upp á 4,2%. Öðruvísi mér áður brá en reyndar eru ekki sömu skilmálar á þeim lánum og þeim lánum sem Íbúðalánasjóður býður.

Við hljótum að velta fyrir okkur þeim áhrifum sem samkeppnin hefur. Bankarnir eru ekki einvörðungu að lána til húsnæðiskaupa heldur er oftar en ekki um hrein og bein neyslulán að ræða. Skuldlaus eigandi húsnæðis upp á 30 millj. kr. getur farið inn í banka og fengið 24 millj. kr. lán og getur náttúrlega farið með þá fjármuni að vild, keypt sér sumarhús, bíl og annað slíkt. Ég held að sú breyting sem hefur átt sér stað hvað þetta varðar muni auka einkaneysluna í landinu allverulega og hafa mjög þensluhvetjandi áhrif. Því er vert að minnast þess málflutnings sem bankarnir viðhöfðu í aðdraganda síðustu kosninga þegar við framsóknarmenn hófum umræðu um að hækka lánshlutfall almennra íbúðalána upp í allt að 90% af verðgildi eigna. Þá heyrðust varúðarorð frá bönkum og forsvarsmönnum banka um að hér væri um mjög hættulegt mál að ræða, að við mundum auka mjög á þenslu í íslensku samfélagi.

En í kjölfar þeirra kerfisbreytinga sem hér áttu sér stað treystu bankarnir sér til að lána allt að 80% af verðgildi eignar, óháð því hvort það lán færi í húsnæði eða til annarra þarfa sem viðkomandi hefði. Því er þetta kannski ekki að öllu leyti jákvæð þróun, sérstaklega ef við horfum á það í ljósi efnahagslegra aðstæðna.

Greiðslubyrði íslenskra heimila hefur lækkað í kjölfar þessa, um milljarða síðan þessi samkeppni hófst og síðan kerfisbreytingin átti sér stað. Við hljótum að fagna þeirri þróun og þeirri vinnu sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur lagt í þessi mál.

Við getum líka spurt okkur að því í ljósi nýrra aðstæðna á markaði hvort bankarnir séu komnir til að vera í hinni miklu og hörðu samkeppni við m.a. Íbúðalánasjóð og hvort Íbúðalánasjóður sé ekki nauðsynlegt aðhald gagnvart bönkunum. Ég held að í ljósi sögunnar hafi það sýnt sig að íslenskir bankar, og reyndar bankar yfir höfuð, eru svo sem engar félagsmálastofnanir. Ég tel því nauðsynlegt að við treystum tilveru Íbúðalánasjóðs. Reyndar er þetta ekki eina forsenda þess að Íbúðalánasjóður verði áfram við lýði heldur hníga fleiri rök að því sem ég mun koma frekar að í máli mínu á eftir.

Það sem við ræðum hér er frumvarp til laga um að lánshlutfallið hækki í 90% af verðgildi eignar að ákveðnu hámarki. Því er ekki að leyna að mikið hefur verið spurt, m.a. úr þessum ræðustól og reyndar úti í þjóðfélaginu líka: Hvenær koma 90% lánin? Hvenær ætla framsóknarmenn að standa við loforðin um 90% lánin? Ætlið þið ekki að fara að hrinda þessu stóra kosningamáli ykkar í framkvæmd? Nú er það orðin raunin.

Ég tel að hér sé um mjög vandmeðfarin mál að ræða og vil í framhaldinu þakka hæstv. félagsmálaráðherra. Hann á svo sannarlega hrós skilið fyrir hversu vel hann hefur haldið á þessu vandasama máli varðandi breytingar á húsnæðislánakerfinu. Við getum tekið sem dæmi að heildarútlán Íbúðalánasjóðs eru um 500 milljarðar kr. Það segir sig sjálft að þær breytingar sem eru gerðar hverju sinni á húsnæðislánakerfinu skipta mjög miklu máli, ekki bara hvað varðar húsnæðislánamarkaðinn heldur og samfélagið allt.

Frumvarpið sem hér er til umræðu er afrakstur verkefnisstjórnar og ráðgjafahóps sem hæstv. ráðherra skipaði sumarið 2003. Hann starfaði fram á haust það ár. Þar voru fulltrúar félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og fulltrúar iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis. Hér hefur verið haldið vel á málum og ég vil halda því til haga.

Það var einnig mikill léttir þegar niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA lá fyrir fyrr á árinu, þ.e. að íslenskum stjórnvöldum væri heimilt að bjóða landsmönnum öllum jafnrétti í íbúðakaupum óháð búsetu eða efnahag. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði og í raun spurningin um það — þá er ég að tala um tilveru Íbúðalánasjóðs og það félagslega hlutverk sem hann gegnir — að hér búi ein þjóð í einu landi. Það er staðreynd að bankarnir hafa fram á þennan dag ekki boðið íbúum landsbyggðarinnar sömu kjör hvað íbúðalán varðar og íbúum höfuðborgarsvæðisins og annarra stærri þéttbýlisstaða bjóðast. Þeir hafa hreinlega sagt að ógerlegt sé fyrir banka að bjóða sams konar kjör á lánum til íbúa í Reykjavík og íbúa á Vopnafirði, svo dæmi sé tekið. Þetta hafa margir forsvarsmenn bankanna sagt og því er ljóst að það félagslega hlutverk sem Íbúðalánasjóður gegnir að þessu leyti er mjög mikilvægt. Ég held að við sem hér erum inni hljótum öll að stefna að því að íbúar landsbyggðarinnar sitji við sama borð og aðrir íbúar þessa lands þegar kemur aðgangi að fjármagni til þess að koma sér upp húsnæði. A.m.k. samræmist slíkt ekki stefnu Framsóknarflokksins í þeim efnum.

Ég vil ekki draga neitt undan því hér að við erum ekki einvörðungu að tala um stefnubreytingu í húsnæðismálum heldur líka um gríðarlegt byggðamál. Hér er um mjög mikið byggðamál að ræða og mér finnst oft fara mjög lítið fyrir þeim vinkli í þessari umræðu því að það er mjög mikilvægt að allir hafi jafnan aðgang að lánsfjármagni í því ljósi m.a. að treysta byggð um allt land.

Ég vil taka undir margt sem hv. þingmenn hafa nefnt í umræðunni og taka upp nokkra punkta, m.a. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þm. Ögmundur Jónasson hafa velt upp varðandi hámarkslánið og hvernig sjóðurinn á að bregðast við því umhverfi sem nú er á íslenskum húsnæðismarkaði. Samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna mun hámarkslánið hækka í 13 millj. kr. á næsta ári og það er bundið í reglugerð þannig að því er hægt að breyta með nokkuð skömmum fyrirvara. Íbúðalánasjóður mun því geta fjármagnað íbúð upp á 14,3 millj. kr. að 90% hluta.

Það er eðlilegt að menn spyrji sig að því: Er það hóflegt íbúðarverð, er það verð á fjögurra herbergja íbúð í Reykjavík? Ég vil leyfa mér að segja að svo er ekki, oftar en ekki, auðvitað getum við kannski fundið einhverjar slíkar íbúðir. Ég legg því mjög mikla áherslu á það hér að sjóðnum verði gert kleift að mæta þeim aðstæðum sem eru fyrir hendi á húsnæðismarkaðnum og ég hef ekki trú á öðru en hæstv. félagsmálaráðherra vilji standa þannig að verki og hann hefur sýnt það fram á þennan dag. Ég vil árétta hér að það er ekkert sem mælir því mót að talan 13 millj. sem gefin hefur verið upp núna muni ekki hækka þegar fram líða stundir og ég tel mig hafa heimildir fyrir því að lánið muni hækka á kjörtímabilinu í framhaldi af þessu.

Ég mun ekki taka undir þann málflutning að Íbúðalánasjóður fari að lána til íbúða sem kosta 20, 30 eða 40 millj. kr. Slíkt samræmist ekki félagslegu markmiði sjóðsins en félagslegt markmið hans er að bjóða öllum hæfilegt íbúðarhúsnæði á hæfilegu verði.

Við getum líka tekið upp annan punkt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson ræddi áðan er varðar skilmála á þeim lánum sem Íbúðalánasjóður veitir. Eins og íbúðalánin eru í dag eru lántakendur Íbúðalánasjóðs varðir fyrir uppgreiðsluálagi þannig að öllum er heimilt að greiða upp lán sín hjá Íbúðalánasjóði án þess að þurfa að borga krónu fyrir. Aftur á móti eru þau lán sem bankarnir og fjármálafyrirtæki eru að veita í dag með hinu svokallaða uppgreiðsluálagi og getur slíkt álag numið allt að 2% af lánsupphæð þannig að af 10 millj. kr. láni mun það í einhverjum tilvikum kosta lántakandann 200 þús. kr. að greiða upp slíkt lán ef aðstæður breytast á markaði og vextir lækka.

Mér finnst vert að velta því upp í umræðunni hvort ekki sé rétt að við á löggjafarsamkundunni veitum Íbúðalánasjóði það svigrúm að hann geti boðið húsnæðislán með sömu skilmálum og verið er að bjóða á almennum bankamarkaði og þar af leiðandi er ljóst að vextir Íbúðalánasjóðs gætu verið lægri en þeir eru í dag. Ég velti þessu einungis upp hér án þess að ég fullyrði nokkuð í þeim efnum en mér finnst mjög vert að skoða þennan vinkil á málinu. En ég dreg ekkert úr þeim jákvæðu áhrifum sem núverandi fyrirkomulag hefur, þ.e. að við verndum lántakendur Íbúðalánasjóðs fyrir þessu uppgreiðsluálagi, en trúlega mættum við gera ráð fyrir að ef við byðum upp á hinn valkostinn tækju flestir þann kost og það er ófyrirséð hvaða kostnað það gæti leitt af sér fyrir framtíðarlántakendur sjóðsins. Ég held að við þurfum að skoða þetta mjög vel í starfi hv. félagsmálanefndar því að hér er um mjög stóra spurningu að ræða en ég vil skoða þetta mál mjög vel.

Annað varðandi frumvarpið sem hér er til umræðu og er mjög gleðilegt er að samkvæmt kostnaðarumsögn eða fylgiskjali frá félagsmálaráðuneytinu og skrifstofu sveitarstjórnarmála er álitið að fjárhagsleg áhrif frumvarpsins verði jákvæð fyrir sveitarfélögin og ég tel það mjög gleðilegt mál. Talið er að um 300 millj. kr. muni sparast í rekstri sveitarfélaganna á landinu við gildistöku þessara laga þar sem sveitarfélögunum hefur verið gert að greiða um 300 millj. á ári í varasjóð viðbótarlána sem mun falla niður við breytingar á lögunum. Mér finnst mjög jákvætt í ljósi þeirrar erfiðu fjárhagsstöðu sem mörg sveitarfélög glíma við að þau losni undan þessari kvöð.

Ég tek aftur á móti undir með hæstv. félagsmálaráðherra að það er mjög áríðandi að við opnum á þá umræðu hvert verður framtíðarhlutverk sveitarfélaganna í húsnæðismálum og félagslega þættinum hvað það varðar. Við vitum, ef við horfum á sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, að þau standa sig ansi misjafnlega í félagslega þættinum sem á þeim hvílir í þeim efnum. Reykjavíkurborg hefur að mörgu leyti staðið sig ágætlega í því þó að alltaf megi gera betur. Aðrir staðir, ónefnd sveitarfélög í nágrannabyggðum Reykjavíkur, sinna mjög lítið því mikilvæga hlutverki sem þau eiga að gegna í þeim efnum og jafnvel er það svo í sumum sveitarfélögum að þar eru örfáar félagslegar íbúðir og oft og tíðum finnst manni að stefna stjórnvalda í þeim sveitarfélögum sé sú að fólk sem þarf á slíkum félagslegum úrræðum að halda búi ekki í viðkomandi sveitarfélögum. Ég á erfitt með að sjá annað.

Annað jákvætt varðandi áhrifin á sveitarfélögin er að afgreiðsla veittra viðbótarlána mun væntanlega hætta og talið er samkvæmt fylgiskjali frá félagsmálaráðuneytinu að þar muni 20 millj. kr. sparast þannig að sparnaður sveitarfélaganna af því frumvarpi sem hér um ræðir er um 320 millj. kr. og munar um minna í erfiðum rekstri þeirra.

Ég vil að lokum fagna því frumvarpi sem hæstv. ráðherra hefur lagt hér fram og ég efa ekki að hv. félagsmálanefnd mun taka þetta stóra og mikilvæga mál til nákvæmrar endurskoðunar. Ég er hlynntur tilgangi laganna og á ekki von á því að það frumvarp sem hér hefur verið lagt fram muni breytast neitt gríðarlega í störfum nefndarinnar en legg áherslu á að nefndin mun vinna fljótt og vel í þessu máli, enda er hér um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir fjölskyldurnar í landinu.