Þróun verðbólgu og forsendur kjarasamninga

Fimmtudaginn 04. nóvember 2004, kl. 13:50:20 (1007)


131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Þróun verðbólgu og forsendur kjarasamninga.

[13:50]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að við keyrum efnahagslífið mjög hart um þessar mundir. Samhliða því var alltaf vitað að einhverjar aukaverkanir yrðu, þó þær séu í algjöru lágmarki. Meðal stærstu áhrifavalda eru stóriðjuframkvæmdir, þróun fasteignaverðs og olíuverð í heiminum. Það er alveg ljóst að við getum ekki haft áhrif á alla þessa þætti, en stjórnvöld hafa gripið inn í verðbólguþróunina með ýmsum hætti. Má m.a. nefna aðhald í ríkisfjármálum í því sambandi.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árin 2003–2004 var mikið aðhald og aukningin ekki mikil fyrir næstu fjárlög. Þó var málaflokkur velferðarmála aukinn að raunvirði og á móti er dregið töluvert úr fjárfestingum ríkissjóðs. Innkoma bankanna á íbúðalánamarkaði á þátt í verðbólguvæntingum. Eðlilega hefur orðið mikil ásókn í ný lán en með þeim sér fólk fram á að lækka greiðslubyrði heimilanna. Ég fagna mjög þessu útspili bankanna og vona innilega að fólk noti hin nýju lán til að lækka virkilega greiðslubyrðina. Reyndar leyfi ég mér að efast um að svo sé í öllum tilfellum.

Það er þó óneitanlega einkennilegt að fylgjast með útspilum bankanna, sérstaklega í ljósi þess að þeir vöruðu mjög við kosningaloforði okkar framsóknarmanna um 90% lán. Þeir sögðu að íbúðalánin sem við lofuðum hefðu gríðarlega þensluhvetjandi áhrif. Hvað má þá segja um lán þeirra sem ekki eru einungis til íbúðakaupa, heldur í einhverjum tilvikum neyslulán sem hafa án efa áhrif á þenslu?

Virðulegi forseti. Menn hafa trú á íslensku viðskiptalífi og er það ánægjulegt. Það segir margt um stöðuna í íslensku efnahagslífi. Það þarf samspil margra til að halda verðbólgunni í skefjum og við vonum auðvitað að allir leggi sitt af mörkum líkt og verið hefur.