Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög

Föstudaginn 05. nóvember 2004, kl. 12:26:58 (1046)


131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[12:26]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær upplýsingar sem fram hafa komið í umfjöllun hv. þm. Ég verð að viðurkenna að mig hnykkir við að heyra það sem þingmaðurinn segir. Verið er að tala um tvær virkjanir, Skatastaða- og Villinganesvirkjun. Ef það er rétt að framkvæmdaraðili geti núna tekið ákvörðun út frá svo takmarkaðri matsskýrslu sem þingmaðurinn lýsir er það ekki það vinnulag sem við höfum haldið að verið væri að reyna að festa í sessi. Það er mjög alvarlegt mál ef svo er. Við erum með gljúfrin þarna, það er mjög mikið gljúfur sem nær langt inn á hálendið og annað gljúfur sem liggur þvert á það. Þarna er um mikla náttúrufegurð að ræða og við eigum í vanda með náttúrufegurðina af því að hún er aldrei í neinum mælieiningum. Náttúrufegurð er eiginlega ekki tekin með í neinu mati og á t.d. við um Langasjó og fleira. Svo er það vatnasviðið og áhrif breytinga á framburði til sjávar á lífríki í sjónum og við ströndina. Þetta er svo stórt mál að ef það er rétt að þetta hafi ekki verið skoðað finnst mér mikilvægt að hæstv. umhverfisráðherra segi okkur frá því hvort það breytist með nýju lögunum.

Ég vil líka nefna það að í umræðunni í fyrra var Samfylkingin með áform um að setja fram tillögu um að í tengslum við löggjöfina þyrfti að stofna sjóð þar sem smærri sveitarfélög og vanbúin gætu sótt um framlag til rannsóknar- og vísindavinnu sem þyrfti að fara fram áður en ákvörðun yrði tekin af hálfu þess sveitarfélags sem framkvæmdaraðila.