Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög

Föstudaginn 05. nóvember 2004, kl. 12:29:05 (1047)


131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[12:29]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að spyrja um þessi atriði.

Það er náttúrlega matsatriði hvenær hverjum finnst verkið vera nógu vel unnið. Afstaða manna til þess hvenær verkið er nógu vel unnið hefur líka breyst hratt á síðustu árum. Afstaða til verks ef það byggir á upplýsingum langt aftur í tímann hefur líka breyst. Það er því mat mitt að vinnan við mat á umhverfisáhrifum Villinganesvirkjunar sé af og frá fullnægjandi til þeirra þátta sem ég nefndi og hv. þm. kom inn á.

Ég tel að í 5. gr. frumvarpsins sé einmitt verið að vísa til þess að þarna megi betur gera því þar segir, með leyfi forseta:

„Í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd eru fyrirhugaðar á sama svæði eða framkvæmdirnar eru háðar hver annarri getur Skipulagsstofnun að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila og leyfisveitendur ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega.“

Verið er að vísa til þess vandamáls sem upp getur komið, enda er alveg fráleitt eins og í Skagafirði að meta eina mjög afmarkaða litla virkjun sérstaklega sem er í raun lykillinn að öllu vatnasvæðinu sem verið er að fjalla um. Þess vegna hefði mátt skoða það allt í stærra samhengi ef á annað borð væri verið að fara út í þetta, einnig önnur verðmæti svæðisins fyrir utan áhrif á heildina niður allt vatnasvæðið, niður öll Héraðsvötnin, meira að segja þar sem eru náttúruverndarsvæði. Það hefur afar takmörkuð skoðun farið fram á áhrifum á það.