Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög

Föstudaginn 05. nóvember 2004, kl. 12:47:36 (1050)


131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[12:47]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir að fara yfir þau atriði sem hún nefndi. Ég hefði þó gjarnan viljað fá meiri pólitík í ræðu hennar við lok umræðunnar, sem hefur vissulega verið nokkuð pólitísk og tekið á stefnu og framkvæmd stjórnvalda á þeim lögum sem hér um ræðir.

Hæstv. umhverfisráðherra nefndi sérstaklega í seinni ræðu sinni að ekki yrði heimilt að kæra til staðfestingar. Ég minni á að það er verulega umdeilt atriði. Hvers vegna er það umdeilt? Það er umdeilt vegna þess að það kom fyrir í tilfelli Kárahnjúkavirkjunar þar sem úrskurður Skipulagsstofnunar gekk gegn framkvæmdinni, úrskurðurinn var kærður til ráðherra og síðan til staðfestingar. Úrskurður ráðherra var kærður til staðfestingar þegar hún hafði snúið við úrskurði Skipulagsstofnunar.

Ég minni á að í svo gífurlega stórum framkvæmdum þar sem svo mikið er undir þá hefur þessi réttur verið nýttur, þ.e. að kæra til staðfestingar. Mér finnst liggja í hlutarins eðli að stjórnvöld séu með þessari breytingu meðvitað að koma af höndum sér fyrirsjáanlegum kærum vegna stórframkvæmda. Mér finnst það mjög miður.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra beinnar spurningar varðandi það sem hún segir um undirnefnd EFTA, sem hefur til athugunar tilskipun nr. 2003/35/EB. Ég spyr hæstv. ráðherra: Vinna íslensk stjórnvöld að því í undirnefnd EFTA að koma málum þannig fyrir að þau þurfi ekki að taka upp eða innleiða tilskipun nr. 2003/35/EB ?