Afleiðingar verkfalls grunnskólakennara

Mánudaginn 08. nóvember 2004, kl. 15:26:28 (1100)


131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Afleiðingar verkfalls grunnskólakennara.

[15:26]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið að því leytinu að ég gat ekki skilið það öðruvísi en svo að vinna væri hafin á vegum menntamálaráðherra og honum væri kunnugt um að fram kæmi tillaga frá hæstv. ríkisstjórn um að beina því til fræðsluyfirvalda sveitarfélaganna að koma með leiðir til úrbóta til að bæta börnum landsins skaðann sem þau hafa orðið fyrir á skólagöngu sinni og hvernig unnt verði að vinna upp þá töf sem orðið hefur á námi barnanna.

Auðvelt er að halda því fram, virðulegi forseti, að verði verkfallið lengra, bresti á aftur með verkfalli, sé þetta skólamissiri ónýtt í grunnskólum landsins. Það hefur gengið svo langt að sex vikur hafa tapast nú þegar og ef það er að marka þær fréttir sem berast að utan og þann orðróm sem er í gangi meðal kennara verður miðlunartillaga ríkissáttasemjara að öllum líkindum felld. Við munum vita það í kvöld.

Því vil ég beina því til hæstv. forsætisráðherra, fyrst við erum að ræða þetta eitt mikilvægasta mál sem komið hefur upp lengi í fræðslu- og menntamálum landsins, hvort hann hafi í undirbúningi einhverjar aðgerðir eða lausnir til að koma að deilunni verði miðlunartillaga ríkissáttasemjara felld í kvöld, annaðhvort af kennurum eða sveitarstjórnarmönnum eða báðum aðilunum.