Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 09. nóvember 2004, kl. 16:10:35 (1194)


131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Stjórnarskipunarlög.

37. mál
[16:10]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. 1. flutningsmaður frumvarps til stjórnarskipunarlaga, Kristján L. Möller, gerði ágæta grein fyrir viðhorfum okkar fimm þingmanna Samfylkingarinnar sem flytjum málið. Okkur og þeim sem hér stendur þykir það réttlætismál, sanngirnismál, að mörkin séu dregin við almanaksárið, við skólaárganginn ef svo má segja. Einhvers staðar þarf að draga mörkin, væri hægt að segja, og af hverju er sanngjarnara að draga þau við almanaksár en við afmælisdag? Þá er alltaf einhver sem er einum degi frá því að komast í hópinn. Meginrökin fyrir því, að mínu mati, eru að um er að ræða mörk sem eru dregin í sambandi við skólaárið. Þetta er sá hópur sem fylgist að í gegnum skólann og skipar bekki. Þá er verið að halda línu, að draga ein mörk þar sem önnur eru dregin. Samræming nokkurs konar. Jafnframt vil ég sjá sömu breytingar annars staðar, eins og þegar verið er að tala um að jafna réttindi eftir aldri, að færa t.d. áfengiskaupaaldurinn úr 20 árum niður í 18 ára. Það er annað þingmál sem ég er flutningsmaður að. Þar held ég að við ættum einnig að miða við almanaksárið en ekki afmælisdaginn.

Ég held við ættum almennt að notast við almanaksárið í stað afmælisdaga, draga línuna sem víðast á sama stað. Það er ekki víst að það henti af praktískum ástæðum þegar kemur að bílprófi því þá værum við með 4.500 til 5.000 einstaklinga sem hefðu rétt á að fá bílpróf á sama degi. Það getur vel verið að það sé erfitt viðureignar þó að mér þætti það sanngjarnt og eðlilegt að draga þau mörk á sama stað hvað varðar kosningaaldurinn, áfengiskaupaaldurinn og ýmis önnur réttindi og jafnframt skyldur sem einstaklingar öðlast við ákveðinn aldur.

Ég held að við ættum almennt að breyta þessu viðhorfi og miða við almanaksárið í stað afmælisdagsins og draga öll mörkin á sama stað. Þá eru jafnaldrar sem eru saman í bekk og fylgjast að í gegnum skólann að öðlast réttindin á nákvæmlega sama tíma. Þá er ekki einn félagi sem fær að kjósa af því hann á afmæli 10. maí en ekki hinn af því hann á afmæli 11. maí. Þeir eru í sama árgangi og öðlast því réttindin á sama tíma.

Jafnframt þessu hef ég verið mjög jákvæður fyrir því að skoða hvort við ættum að lækka kosningaaldurinn um tvö ár, úr 18 ára niður í 16 ára. Mér finnst mjög margt styðja að það væri réttlátt og sanngjarnt þó ég sé ekki búinn að gera upp hug minn endanlega í því og hef ekki ákveðið að halda því fram sem afstöðu minni í málinu er mjög margt sem styður það að lækka eigi kosningaaldurinn úr 18 ára í 16 ára. Verið er að skoða það í Bretlandi.

Tímarnir eru svo breyttir. 16 ára einstaklingur tekur fullan þátt í samfélaginu. Hann er að ljúka grunnskólagöngu sinni og fara út í lífið, oftast vonandi í framhaldsskóla. Hefur lokið barnæskunni ef svo má segja í gegnum skólagönguna og er að fara að takast á við lífið með öðrum hætti. 16 ára einstaklingur í nútímasamfélagi er einfaldlega orðinn það upplýstur og virkur þátttakandi í þjóðfélaginu að mér þætti ekki óeðlilegt að 16 ára aldurinn yrði kosningaaldur.

Hvað mælir í sjálfu sér gegn því? Hvorki bernska né fáfræði. Það eru mjög svo þroskaðir og upplýstir einstaklingar á þessum aldri í nútímasamfélaginu, orðið fullorðið fólk að miklu leyti þó svo að þeir flokkist sem börn upp að 18 ára aldri. Ég held að það sé eitthvað sem við ættum að taka upp til alvarlegrar skoðunar jafnframt þessum umræðum öllum um stjórnarskrárbreytingar, lýðræðismálin, kosningamálin — við ræddum hér í síðustu viku merkilega tillögu til stjórnarskrárbreytinga um mörg brýn atriði eins og jöfnun atkvæðisréttar, beint lýðræði og margt, margt annað — hvort við ættum að lækka kosningaaldurinn úr 18 ára í 16. Það væri mjög skemmtilegt ef t.d. ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna og önnur samtök sem ungmenni skipa tækju upp virka umræðu, lýðræðislega umræðu um einmitt þetta mál, um kosti og galla þess að lækka kosningaaldurinn úr 18 ára í 16. Hvað mælir sérstaklega á móti því? væri hægt að spyrja. Sjálfsagt geta menn tínt ýmislegt til en um leið er mjög margt sem styður það.

Ég mundi vilja umræðu hérna á næstunni sem leiddi þetta til lykta. Þetta er mál sem væri þá hægt að taka til umræðu í þinginu á þessu kjörtímabili, a.m.k. væri það af hinu góða að umræða færi fram. En það er annað mál og seinni tíma mál.

En þessa breytingu á stjórnarskipunarlögum, að breyta kosningaaldrinum og kjörgenginu þannig að miðað sé við almanaksár en ekki fæðingardag, styð ég eindregið og heils hugar og vona að hún fái jákvæða meðferð í þinginu eins og flutningsmenn ítreka hér. Ég vonast til að frumvarpið fái ítarlega og vandaða meðferð í þinginu þannig að hægt sé að afgreiða þessa sanngirnisbreytingu á yfirstandandi þingi og byrja á því að draga línuna alltaf á sama stað, draga hana við almanaksárið en ekki við fæðingardag einstaklinganna.