Samræmd áfengisstefna á Norðurlöndum

Miðvikudaginn 10. nóvember 2004, kl. 18:08:37 (1258)


131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Samræmd áfengisstefna á Norðurlöndum.

117. mál
[18:08]

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað og fannst ánægjulegt að heyra svör hæstv. ráðherra.

Ég er hins vegar ekki sammála lækkun áfengiskaupaaldurs. Í skýrslu dómsmálaráðherra, sem lögð var fyrir Alþingi árið 2000, kom fram að lækkun áfengiskaupaaldurs getur haft í för með sér greiðari aðgang yngri barna að áfengi og að unglingar byrji fyrr að drekka með þeim vandamálum sem því fylgja. Drykkjuvenjur eru allt aðrar hér á landi en í öðrum Evrópulöndum og í skýrslunni kemur einnig fram að hlutfall íslenskra unglinga sem lenda í vandræðum vegna áfengisneyslu sé mun hærra hér en annars staðar. Hvergi í Evrópu er annað eins framboð á meðferð fyrir áfengissjúka og hvergi hefur jafnstór hluti einnar þjóðar farið í einhvers konar meðferð vegna misnotkunar áfengis og hér á landi.

Það kemur líka fram í skýrslunni að nefndin ásamt öllum þeim sem tengdust börnum og leitað var álits hjá voru sammála um að ekki skyldi lækka áfengiskaupaaldurinn.