Samræmd áfengisstefna á Norðurlöndum

Miðvikudaginn 10. nóvember 2004, kl. 18:12:04 (1260)


131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Samræmd áfengisstefna á Norðurlöndum.

117. mál
[18:12]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Það að samræma áfengisstefnu á Norðurlöndum felst ekki í því að nákvæmlega sama regla verði um sölu víns í öllum löndunum. Löndin hafa misjafnan kúltúr hvað þetta snertir, eins og við vitum. Hins vegar er eitt lykilatriði sem ég nefndi í svari mínu, að Norðurlöndin ætla að tala einum munni á vettvangi Evrópubandalagsins um skattlagningu á áfengi. Þetta þýðir ekki að við þurfum að hækka skatta á áfengi. Á Norðurlöndunum hafa menn áhyggjur af mikilli landamæraverslun með áfengi og mismunandi skattlagningu.

Þar að auki, svo að ég stikli á stóru, er samkomulag um að á áfengi sé ekki litið sem hverja aðra vöru. Það felst í því að takmarkanir eru á sölu þess, það eru aldursmörk og ákveðnar reglur um auglýsingar, þó að menn greini á um hvernig eigi að framfylgja þeim reglum. En um þetta er samkomulag á Norðurlöndunum. En samkomulagið felst ekki í því að það sé nákvæmlega eins á öllum Norðurlöndum hvernig er staðið að sölu á áfengi, ég reikna ekki með að það verði á næstunni, en að tala einum munni í skattamálum og vinna sem einn maður á vettvangi Alþjóðaheilbrigðismálstofnunarinnar, m.a. að áfengismálin séu tekin þar á dagskrá og forvarnir séu teknar þar á dagskrá.