Sementsverð á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 10. nóvember 2004, kl. 18:42:10 (1272)


131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Sementsverð á landsbyggðinni.

152. mál
[18:42]

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir að koma með málið hingað inn og hæstv. ráðherra fyrir svarið, þó ég hafi ekki náð að skrifa allar prósentutölurnar niður, enda tók ég eftir því að ráðherranum var mjög skemmt við upplesturinn og stundum getur maður ruglast á því þegar heyrist illa í þingsal hvort um lækkun eða hækkun hafi verið að ræða.

Það verður gott að skoða þær tölur sem hæstv. ráðherra flytur hér í samhengi við þá yfirlýsingu sem hv. þingmaður hefur vitnað í frá Sementsverksmiðjunni, og var fyrir mitt leyti algjört frumskilyrði fyrir samþykki mínu á því að leggja sjóðinn niður. Plús það, eins og ég sagði þá, að ég reiknaði með því og trúði ekki öðru en að hæstv. ríkisstjórn mundi einhvern tíma standa við það loforð að koma með flutningsjöfnun eða aðrar aðgerðir til að lækka flutningskostnað í landinu.

Virðulegi forseti. Vegna þess að ég hef heyrt hæstv. ráðherra tala einu sinni um þetta í kjördæmi okkar þá er ég ekki að tala um einhverjar litlar 200 millj. í þeim efnum. Það mun ekki duga í þá flutningsjöfnun sem nauðsynleg er gagnvart landsbyggðinni.