Rannsókn á þróun valds og lýðræðis

Mánudaginn 15. nóvember 2004, kl. 16:53:11 (1479)


131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[16:53]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það eru góð tíðindi að hv. þm. Hjálmar Árnason hvetji stjórnmálaflokkana til þess að opna bókhald sitt. Við í Frjálslynda flokknum höfum opið og endurskoðað bókhald sem má sjá á heimasíðu flokksins.

Sú leynd sem hvílir yfir bókhaldi flokkanna er ávísun á spillingu og hér í þinginu hafa ekki eingöngu stjórnarandstöðuflokkar bent á það heldur einnig prófessorar í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Í þætti nýlega benti t.d. Svanur Kristjánsson á að Essó hafi dælt peningum ríflega í Framsóknarflokkinn, hann hafi verið á föstum fjárframlögum.

Það kom einnig fram í ágætu blaði fyrr í vor að Framsóknarflokkurinn hafi verið í fastri áskrift hjá Baugi. Þetta er ástand sem er ekki líðandi, og það er gott ef framsóknarmenn eru farnir að sjá að sér og vilja bæta úr þessu. Það á ekki að bjóða íslenskum kjósendum upp á að þurfa að kjósa flokka sem eru styrktir með leynilegum fjárframlögum. Þetta er kerfi sem hvergi líðst í Evrópu, þó með einni undantekningu held ég. Við höfum fengið tilmæli frá Evrópuráðinu um að þessu þurfi að breyta og það er gott ef framsóknarmenn eru farnir að sjá að sér í þessum efnum.