Rannsókn á þróun valds og lýðræðis

Mánudaginn 15. nóvember 2004, kl. 16:58:09 (1482)


131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[16:58]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Prófessor í Háskóla Íslands sagði það, þar með er það rétt.

Ég hef mikla trú á menntuðu fólki en það kemur fyrir að menntað fólk hafi rangt fyrir sér og ég hygg að hv. þm. geri sér grein fyrir því. Jafnvel prófessorum í háskólanum getur orðið á í messunni og ég tel að umræddur prófessor, sem hv. þm. vísar til, hafi farið með staðlausa stafi og það er mjög auðvelt að færa rök fyrir því (Gripið fram í: Opna bókhaldið.) bara með því að bera saman annars vegar fullyrðingu hans og hins vegar yfirlýsingu frá fulltrúum olíufélaganna að undanförnu (Gripið fram í: Er ekki rétt að opna bókhaldið?) og bera það saman.

Hv. þm. fékk sínar tvær mínútur og nú væri ráð að hann þegði á meðan ég klára þetta.

Ég vil svo segja að ég skildi ekki alveg ræðu hv. þm. í umræðunni. Hér liggur fyrir þingsályktun um að fara efnislega í þróun valds og lýðræðis á Íslandi, þar á meðal að skoða bókhald flokka, allra flokka. En hv. þm. festir sig mjög gjarnan við Framsóknarflokkinn í þessari umræðu, eins og oft áður einhverra hluta vegna, og það ber að fagna áhuga hv. þm. á Framsóknarflokknum. En hér er verið að ræða ástand, eins og er margbúið að koma fram og hv. þm. virðist ekki skilja, þetta er sú vinnuregla sem hefur verið hjá öllum flokkum og fram hefur komið vilji hjá þeim öllum til þess að finna lausn þannig að það verði opnað.

Ef hv. þm. ætlar að taka þátt í almennri umræðu þá á hann ekki að tala með þeim hætti sem hann hefur gert hér. Það er ekki til þess að bæta umræðuna en ég vona að umræðan haldi samt áfram á málefnalegri nótum en í innskoti hv. þm.