Rannsókn á þróun valds og lýðræðis

Mánudaginn 15. nóvember 2004, kl. 17:55:44 (1495)


131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[17:55]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég á skemmra erindi í ræðustólinn að þessu sinni. Ég vil bara fagna undirtektum hv. þingmans við því að Ríkisendurskoðun hafi hér einhverju hlutverki að gegna því að þó að menn kunni að deila um hvort og hversu opið bókhald manna eigi að vera þá hljótum við öll að vera sammála um það sem hér störfum að bókhald um starfsemi okkar og okkar samtaka hlýtur að þurfa að vera þess eðlis að það standist skoðun. Það hlýtur að þurfa að vera með því að það lágmarki eitthvert formlegt eftirlit þó að okkur kunni síðan að greina á um hversu langt eigi að ganga í að opna það.

Ég fagna því þessum undirtektum þingmanna Framsóknarflokksins undanfarna daga og vonast til að við berum gæfu til að fela Ríkisendurskoðun með formlegum hætti eitthvert hlutverk í þessu efni.