Íslenska táknmálið

Mánudaginn 15. nóvember 2004, kl. 18:09:30 (1500)


131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Íslenska táknmálið.

277. mál
[18:09]

Flm. (Sigurlín Margrét Sigurðardóttir) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég mæli í annað sinn á Alþingi Íslendinga fyrir frumvarpi til laga um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Ég mæli fyrir tveimur frumvörpum, frumvarpi um viðurkenningu táknmáls annars vegar og hins vegar frumvarpi á þskj. 324, svokölluðum bandormi, þar sem gerðar eru nauðsynlegar breytingar á ýmsum lögum til að styðja réttarstöðu þeirra sem nota íslenska táknmálið, einkum hvað varðar rétt til að nota það í samskiptum við ríki, sveitarfélög og stofnanir.

Ljóst er að ef frumvarp til laga um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra verður að lögum þarf að breyta fjölmörgum lögum í kjölfarið og þyrfti hvert ráðuneyti fyrir sig að taka lög á sínu málefnasviði til gagngerrar endurskoðunar. Í þessu frumvarpi er fyrst og fremst tæpt á helstu atriðum sem þurfa lagfæringar við.

Sem fyrr eru margir mætir meðflutningsmenn með mér að frumvarpinu. Í frumvarpinu er að finna réttindaskrá um stöðu og réttindi þeirra sem tala íslenska táknmálið jafnframt því sem kveðið er á um að táknmál verði viðurkennt sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga og réttur þeirra tryggður til hvers konar táknmálstúlkunar.

Ég ákvað að nota hugtakið „fyrsta mál“ í 1. gr. frumvarpsins af því að skilgreiningin sem gefin hefur verið á hugtakinu móðurmál er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Það mál sem er talað í því landi sem maður fæðist í og er talað af þeirri fjölskyldu sem elur mann upp telst vera móðurmál manns.“

Þessi skilgreining getur ekki gilt um heyrnarlausa almennt því að 98% heyrnarlausra fæðast í heyrandi fjölskyldum. Táknmálið er því í flestum tilfellum áunnið mál á heimilinu þegar barn fæðist heyrnarlaust í heyrandi fjölskyldu sem hefur íslensku að móðurmáli sínu.

Líf heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra mun taka miklum stakkaskiptum við viðurkenningu á íslenska táknmálinu. Sjálfsmynd og sjálfstraust þeirra mun eflast til muna. Þeir munu finna hvers virði það er að geta sinnt daglegum félagslegum þörfum hindrunarlaust og geta rofið þá einangrun sem hefur heft þá í langan tíma. Þeir munu geta tekið fullan þátt í atvinnulífinu. Þeir þurfa ekki lengur að betla af t.d. vinnuveitanda að greiða fyrir þjónustu túlks á starfsmannafundum. Það styrkir sjálfsmyndina töluvert, sérstaklega á vinnustað, að vita að maður hefur sömu möguleika til launahækkana og til að vinna sig upp og heyrandi samstarfsmenn.

Daufblindir eru þeir sem hafa skerta eða enga heyrn og skerta eða enga sjón samtímis. Daufblinda, sem nota snertitáknmál, er þess vegna sjálfsagt að taka með, enda er þar um að ræða fámennasta hóp fatlaðra hér á landi, ef svo má að orði komast. Þeir þurfa þó einhverja sérhæfðustu þjónustuna á forsendum samskipta og á táknmálið að skipa þar stóran sess. Þessir þrír hópar, heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir, eiga táknmálið sameiginlegt og því má enginn þeirra vera settur út undan. Táknmál á að vera þessum þremur hópum velkomið aðgengistæki að upplýsingum, námi, menningu og daglegu lífi. Í þessu frumvarpi eiga réttindi þessara þriggja hópa á forsendum táknmálsins að vera tryggð, vera þeirra réttindaskrá.

Táknmál er á undanförnum áratug farið að sjást víða í samfélaginu. Má þar nefna grunn-, framhalds- og háskóla, þar sem heyrnarlausir stunda nám með túlk sem aðgengistæki sitt að náminu. Heyrnarlausir hafa á síðustu missirum mikið látið að sér kveða, sér í lagi hvað varðar hagsmunamál sín. Þeir eru ekki lengur sá hógværi hópur sem löngum var nánast gleymdur.

Sú barátta sem heyrnarlausir hafa háð hefur þegar borið árangur. Þar má nefna eitt spor í margra ára réttindabaráttu þeirra sem stigið var í haust, í byrjun þessa þings þegar hæstv. menntamálaráðherra ákvað að gera bragarbót í málefnum félagslegrar túlkunar og leggja til 2 millj. kr. fjárframlag fyrir árið 2004 en árið 2005 er áætlað að veita 10 millj. kr. í félagslega táknmálstúlkun. Þetta fjárframlag er vissulega góðra gjalda vert og þarft en þó að þessu fjárframlagi sé ætlað að tryggja rétt heyrnarlausra þá vantar með öllu að sá réttur sé lögbundinn. Tilkoma og síðar samþykkt táknmálsfrumvarpsins er því mikilvægt innlegg í að réttur heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra sé lögbundinn með öllu. Út á það gengur frumvarpið sem ég flyt nú.

Á haustdögum 2003 gerðist sá atburður að fyrrverandi forseti okkar Íslendinga, frú Vigdís Finnbogadóttir, tók að sér að gerast verndari táknmála á Norðurlöndum. Vigdís er sem kunnugt er útvalin velgerðarsendiherra erlendra tungumála hjá UNESCO og í ljósi þeirrar stöðu sem hún gegnir veit hún nákvæmlega að hverju hún gengur með því að gerast verndari táknmála á Norðurlöndum. Hún veit að táknmál er sjálfstætt mál og það á að viðurkenna og virða. Með leyfi forseta vitna ég í annað sinn í þessi orð:

„Ef ég viðurkenni mál annars manns hef ég þar með viðurkennt manninn ... en ef ég viðurkenni ekki mál hans hef ég þar með hafnað honum vegna þess að málið er hluti af okkur sjálfum.“

Norski málvísindamaðurinn Terje Basilier sagði þessi orð en því hefur einnig verið haldið fram að bandaríski mannréttindafrömuðurinn Martin Luther King hafi fyrstur látið þessi orð falla. Hver sagði þessi orð fyrstur skiptir ekki öllu máli en þau eiga svo sannarlega vel við nú þegar fjallað er um viðurkenningu íslenska táknmálsins.

Það er flókið að viðurkenna nýtt mál. Skoða þarf vandlega hvað viðurkenning á táknmáli þýðir fyrir heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda og hvaða þýðingu hún hefur fyrir stjórnvöld. Sem fyrsti flutningsmaður þessa frumvarps tel ég að viðurkenningin sé fyrir þessa þrjá samfélagshópa bæði viðurkenning á tilveru þeirra og á ábyrgð stjórnvalda. Fyrir stjórnvöld þýðir viðurkenningin einfaldlega að virða skuli rétt hvers einstaklings til mismunandi þarfa og koma til móts við þá af virðingu.

Ég segi enn og aftur að framtíðarsýnin í lagasetningunni er sú að táknmálið muni njóta sömu virðingar og önnur mál og að heyrnarlausum verði gert mögulegt að taka fullan þátt í þjóðfélaginu á grundvelli laganna og að heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir hafi rétt til að ákveða sjálfir hvaða mál er móðurmál þeirra og aðrir viðurkenni og virði þá ákvörðun.

Íslendingar hafa byggt upp öflugt velferðarkerfi sem hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Alþingi væri sómi að því að gera betur með því að viðurkenna táknmál sem fyrsta mál heyrnarlausra og heyrnarskertra. Gera þarf heyrnarlausum, heyrnarskertum og daufblindum, sem aðallega eru notendur táknmálstúlkaþjónustu, þannig hátt undir höfði að þeir geti og fái notið táknmálstúlkaþjónustu hindrunarlaust. Full þátttaka ríkissjóðs í greiðslu táknmálstúlkakostnaðar er því sjálfsögð.

Til að viðurkenning íslenska táknmálsins öðlist fullt gildi þarf tvennt að vera tryggt: Í fyrsta lagi efling táknmálsfræðináms. Það þarf að stórefla táknmálsfræðinám sem nú er stundað í Háskóla Íslands. Það er nú fjögurra ára nám, nám í túlkafræði er tveggja anna nám og aðeins þeir sem hafa lokið námi í táknmálsfræði geta farið í nám í túlkun.

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra annast kennslu í túlkanámi í samvinnu við táknmálsfræði í Háskóla Íslands. Á fyrsta ári eru nú 27 nemendur í fullu námi en níu nemendur í hlutanámi. Engir nemendur eru á öðru ári m.a. vegna þess að engir fyrsta árs nemar voru teknir inn síðasta haust. Hins vegar eru fimm nemendur á þriðja ári, á því síðasta ári námsins er kennd táknmálstúlkun. Til að þessi deild geti dafnað og vaxið verður að mennta fleiri táknmálskennara. Í dag er lektor deildarinnar eini fasti starfsmaður hennar. Efst í forgangsröðun þessa ætti því helst að vera að mennta fleiri táknmálskennara. Táknmálsfræðinámið í Háskóla Íslands heyrir nú undir heimspekideild. Nemendur í öðrum námsgreinum háskólans eiga möguleika á að læra þar táknmál. Þannig gætu heyrnarlausir notið þjónustu sálfræðings eða lögfræðings sem kann táknmál og nemendur í málvísindum gætu lagt stund á táknmál og unnið að rannsóknum á því með námi og síðan að loknu námi. Nemendur í sagnfræði gætu skoðað sögu táknmálsins og heyrnarlausra og lært táknmálið. Nemendur í mannfræði gætu lært táknmál, fræðst um það og stundað rannsóknir á menningarlegum mun samfélaga heyrnarlausra og heyrandi. Jafnframt þarf að veita meira fé til rannsókna á íslenska táknmálinu svo fleiri geti lagt stund á þær.

Í lögum um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra frá árinu 1991 er kveðið á um að eitt af meginhlutverkum miðstöðvarinnar sé að stunda rannsóknir á íslensku táknmáli. Frá stofnun hennar hefur hún ekki gefið út neina rannsókn á táknmáli sem hægt er að vísa í og ekki gefið út námsefni á táknmáli nema það sem stofnunin kennir sjálf. Nemendur í táknmálsfræði geta því ekki stuðst við neina rannsókn á íslensku táknmáli sem veldur þeim vissum erfiðleikum í náminu samanborið við nám í öðrum deildum Háskóla Íslands. Alla táknmálsnámsefnisgerð þarf því að efla mikið til að hægt sé að kenna og nema málið á sem bestan hátt.

Vesturhlíðarskólinn, eini grunnskólinn á Íslandi fyrir heyrnarlaus börn, var lagður niður vorið 2002 og starfsemin flutt í Hlíðaskóla sem nefnist nú Hlíðaskóli táknmálssvið. Því er aðkallandi að kennarar í almennum skóla eins og Hlíðaskóla kunni táknmál og jafnvel kennarar í öðrum skólum sem heyrnarlaus eða heyrnarskert börn kunna að vera í því að foreldrar heyrnarlausra eða heyrnarskertra barna geta valið þann möguleika að setja barn sitt í hverfisskólann. Táknmálsfræðideild Háskóla Íslands gæti í náinni samvinnu við Kennaraháskóla Íslands boðið nemendum Kennaraháskólans táknmálsfræðinám og metið það til eininga sem hluta af kennaraprófi. Þannig gætu nemendur í Þroskaþjálfaskóla, leikskólakennaraskor og íþróttakennaraskor lært táknmál samhliða námi sínu í Kennaraháskólanum eins og nemendur í grunnskólaskor. Mikill hagur yrði í því að fólk í þessum störfum kynni táknmál. Jafnvel mætti síðar kenna táknmál í Háskólanum á Akureyri eða í öðrum háskólum á landsbyggðinni ef eftirspurn væri eftir því.

Táknmálsfræðinámið verður ekki eflt á einum degi. Það þarf að gefa þessu öllu tíma til að dafna. Sýna þarf þeim sem hafa áhuga á að fara í táknmálskennaranám og túlkanám að starfsgrundvöllur þeirra og framtíð séu tryggð.

Í öðru lagi þarf að tryggja fjárveitingar til allrar þeirrar túlkaþjónustu sem fellur undir frumvarpið. Tryggja þarf rétt heyrnarlausra til túlkaþjónustu í félagslegum tilgangi. Með því er jafnframt komið á menntunar- og atvinnuöryggi fyrir táknmálstúlka.

Táknmálstúlkastarfið þarf að lögvernda. Tryggja þarf að táknmálstúlkanám í Háskóla Íslands verði alltaf í boði því fjölga þarf táknmálstúlkum á tveggja ára fresti, sérstaklega í ljósi þess að virkir vinnutímar táknmálstúlka eru aðeins 20 stundir á viku vegna þess hversu slítandi starf þeirra er. Þá þarf að mennta túlka daufblindra sérstaklega því daufblindir nota snertitáknmál.

Í fylgiskjali með frumvarpi þessu er texti af vísindavef háskólans sem skýrir táknmál á mjög einfaldan hátt en eins og áður hefur komið fram hafa engar rannsóknir farið fram á íslensku táknmáli sem hægt er að vísa til.

Eins og ég hef nefnt áður er frumvarpið flutt öðru sinni nú. Í síðasta flutningi fékk það góða athygli en því miður var ekki sömu athygli að fagna hjá menntamálanefnd. Frumvarpið fékk nánast enga umfjöllun í nefndinni og ég er að vonum mjög svekkt yfir því. Hver sem ástæðan kann að vera vil ég fá að segja það, virðulegi forseti, að ég er nokkurn veginn viss um að í þinginu er almenn sátt um að koma réttindum heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra inn í hið lögbundna form sem táknmálsfrumvarpið er. En ég held að meginástæðan sé þó að þingheimur og þó sérstaklega stjórnarflokkarnir hræðist einhvern himinháan kostnað sem mundi koma á frumvarpið í framkvæmdinni. Ég held að sá ótti sé ástæðulaus ef menntamálanefnd settist aðeins niður, gæfi hugmyndafluginu lausan tauminn og kæmi með tillögur sem sennilega mundu birtast í séráliti. Það vil ég endilega. Ég vil sjá óskir stjórnarliðanna. Ég er nokkuð viss um að samfélag heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra, sem lögin eiga að ná til, vill það líka. Ég er tilbúin til að skoða allar lausnir svo framarlega sem þær skerða ekki frelsi og réttindi manna sem einstaklinga á nokkurn hátt en stuðla að því að allir fái tækifæri til að njóta sín sem sjálfstæðir einstaklingar.

Ég tek það líka fram að öllum réttindum fylgja ákveðnar skyldur. Skyldur heyrnarlausra í þessu samhengi eru þær að þeir sjálfir láti vita af sér og túlkaþörf sinni og ég er viss um að þær skyldur verða virtar.

Ísland er lítið land, það hefur oft verið sagt. Það hefur líka verið sagt að við séum framsækin. Við ættum að nota okkur þetta tvennt hérna núna. Smæð landsins og mannfjöldi gerir það að verkum að við ættum að eiga auðvelt með að koma lögbundnum réttindum heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra í ákveðið form eða módel sem aðrar þjóðir geta tekið til fyrirmyndar í stærra samhengi. Það eru ekki margar þjóðir sem hafa viðurkennt táknmálið og jafnvel þó að nokkrar hafi viðurkennt það er ekki þar með sagt að því sé sinnt af alúð og umhyggju ásamt því að vera sett í ákveðið form. Hjá nokkrum löndum er viðurkenningin ein og sér bara dauður lagabókstafur en miklu máli skiptir hvernig hagvöxtur landsins er. Við Íslendingar státum okkur hins vegar oft af miklum hagvexti og ættum þá að geta verið vel í stakk búin til að geta sinnt réttindum heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra af alúð. Látum okkur það eftir með samþykkt táknmálsfrumvarpsins.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og vísa þessum tveimur frumvörpum til menntamálanefndar með náðarsamlegri ósk um ítarlega umfjöllun af hálfu nefndarinnar.