Íslenska táknmálið

Mánudaginn 15. nóvember 2004, kl. 19:03:06 (1505)


131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Íslenska táknmálið.

277. mál
[19:03]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mig langar til að fylgja þessu frumvarpi úr hlaði með örfáum orðum. Ég er einn af 16 flutningsmönnum þess, 16 flutningsmönnum sem koma úr öllum stjórnarandstöðuflokkunum. Þetta er mjög myndarlegur hópur og ég hygg að það endurspegli — ég trúi því a.m.k. — að það endurspegli að frumvarpið njóti töluverðs fylgis á hinu háa Alþingi og ég vona svo sannarlega að þegar að því komi skipti í raun og veru engu máli hvar í flokki menn standa. Hér er að sjálfsögðu verið að fjalla um sjálfsagt mannréttindamál, að táknmálið skuli vera fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga, mál sem í raun og veru ætti að vera hafið yfir alla pólitíska flokkadrætti og pólitískt dægurþras.

Ég sagði það hér á dögunum þegar mælt var fyrir frumvarpi um textun á sjónvarpsefni, sem líka er sjálfsagt jafnréttismál, að það væri okkur Íslendingum til skammar hversu skammt á veg við erum komin þegar um er að ræða sjálfsögð réttlætismál fyrir þennan þjóðfélagshóp sem er glettilega stór hluti af þjóðinni. Það kom fram á dögunum að u.þ.b. 10% af þjóðinni eiga við örðugleika að etja þegar heyrn er annars vegar. Það er ekki lítill hópur, frú forseti.

Ég ætla ekki að setja á langa ræðu nú. Hér hafa verið fluttar ágætar ræður um þetta mál, ég er sammála efni þeirra og sé enga ástæðu til að endurtaka það. Eftir að hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir kom til liðs við okkur í þingflokki Frjálslynda flokksins hafa augu mín opnast fyrir því hve skammt við erum á veg komin þegar þessi mál eru annars vegar. Ég gerði mér ekki grein fyrir því, alls ekki, að ástandið væri svona slæmt og eftir því sem ég kynnist réttindamálum heyrnarlausra betur þess sannfærðari verð ég um að það sé mjög brýnt að við, íslenska þjóðin, tökum okkur tak og gerum gangskör að því að lagfæra þessi mál. Þetta er stór hópur þjóðfélagsþegna sem greiða sitt til samfélagsins og þessi hópur á sjálfsagða kröfu til þess að samfélagið veiti þeim grundvallarþjónustu á móti.

Ég vil að lokum, frú forseti, fá að koma á framfæri þökkum til hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur. Hún hefur flutt mál sín og undirbúið þau af miklum dugnaði og mikilli elju. Það hefur verið gaman að fylgjast með því hversu mikla vinnu hún hefur lagt í frumvörpin sem hún hefur mælt fyrir á hinu háa Alþingi. Ég vona svo sannarlega að hv. menntamálanefnd taki við þessum frumvörpum og að þeir sem sitja þar sjái til þess að þau fái þinglega meðferð og að stjórnarflokkarnir, sem hljóta jú að bera ábyrgð á því að þessi mál hafa hingað til ekki komist í gegnum þingið, sjái nú sóma sinn í því — þó að þeir séu kannski ekki endilega fullkomlega sammála því sem stendur í þessum frumvarpstextum — að koma þá með breytingartillögur, afgreiða þessi mál úr nefndunum þannig að þau komist aftur til 2. og helst 3. umr. Ég óska þess heitast að þessi frumvörp verði að lögum þannig að þessi mál komist endanlega á þann rekspöl sem þau eiga skilið.