Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda

Þriðjudaginn 16. nóvember 2004, kl. 14:37:48 (1529)


131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[14:37]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um innrásina í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda við hana. Að tillögunni standa allir stjórnarandstöðuflokkarnir, þ.e. formenn stjórnarandstöðuflokkanna, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón Arnar Kristjánsson, og flytja þessa tillögu fyrir hönd stjórnarandstöðunnar. Stjórnarandstöðunni er heitt í hamsi út af þessu máli og hefur verið það frá 20. mars 2003 þegar innrásin var gerð og þegar ljóst varð að íslensk stjórnvöld höfðu gengið fram fyrir skjöldu og sett íslenska þjóð á lista yfir hin viljugu ríki sem voru tilbúin til að styðja bresk og bandarísk yfirvöld í því feigðarflani sem þá var yfirvofandi. Það hefur auðvitað sýnt sig að það var ekkert annað, og er ekkert annað en feigðarflan frá upphafi til enda.

Hvað er að gerast í Falluja í dag? Hvað er að gerast í þeirri herteknu borg, borg þar sem 300 þús. íbúar hafa verið gerðir landflótta, þeir sem ekki eru þegar fallnir? Hvað er að gerast hjá sjúkum og hjá ungum börnum í Falluja í dag, hjá fjölskyldufólki og venjulegum borgurum? Það er ekki til sóma fyrir íslenska þjóð sem þar er að gerast. Allt þetta styðja íslensk stjórnvöld, hæstv. ráðherrar Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson hafa lýst yfir stuðningi við þau voðaverk sem hafa verið framin í Írak síðan innrásin var gerð. Talið er að 100 þús. óbreyttir borgarar hafi þegar fallið í valinn í þessum ófriði. Það er satt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði í áhrifamikilli ræðu sinni, framsöguræðu þegar hann fylgdi úr hlaði þessari tillögu, þetta er eitt umdeildasta mál samtímans á Vesturlöndum.

Lýðræðislegar leikreglur þjóðarinnar hafa verið brotnar og það hafa þeir gert, þessir tveir háu herrar, hæstv. ráðherrar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Þeir báru ekki nokkurn skapaðan hlut undir utanríkismálanefnd Alþingis. Þeir önduðu engu út úr sér við formenn stjórnarandstöðuflokkanna. Þingið var ekki varað við og þjóðin ekki spurð. Það má segja að þjóðinni og þinginu hafi verið sýnd fullkomin lítilsvirðing þegar farið var út í það feigðarflan íslensku ríkisstjórnarinnar að ákveða að styðja þessi átök. Allt þetta er gert þvert ofan í 24. gr. þingskapalaga þar sem segir, með leyfi forseta:

„Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum.“ — Þessari grein þingskapalaga var ekki sinnt.

Hæstv. forseti. Það hefur ekki komið fram hjá þessum háu herrum hvort þeir yfir höfuð lögðu sjálfstætt mat á þá ákvörðun að taka sæti fyrir hönd íslensku þjóðarinnar á lista hinna viljugu. Því hefur aldrei verið svarað. Hins vegar hefur komið fam að meginforsendur Bandaríkjamanna og Breta fyrir innrásinni voru rangar, þær stóðust ekki. Það sem meira er, forustumenn þessara tveggja þjóða hafa viðurkennt það. En viðurkenna íslenskir ráðamenn mistök sín? Ó nei, það gera þeir ekki. Og eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti þjóðinni á láta þeir ekki svo lítið sem að sitja hér eða vera viðstaddir þá umræðu sem hér fer fram, umræðu sem er í kjölfar fyrsta þingmáls sem öll stjórnarandstaðan á Alþingi Íslendinga lagði fram þegar þing kom saman í haust, þess þingmáls sem stjórnarandstaðan lagði mesta áherslu á að tekið yrði fyrir, á þskj. 3, og hæstv. forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar láta ekki svo lítið að vera viðstaddir. Enn er þjóðinni og Alþingi Íslendinga sýnd lítilsvirðing með þessari framkomu. Það er mál að linni, hæstv. forseti.

Þessir ráðamenn tóku þátt í innrásinni í Írak sem var metin ólögmæt af samfélagi þjóðanna, af Kofi Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Kofi Annan hefur varað við áframhaldandi bardögum í Írak, áframhaldandi framgöngu þessara herja. Fyrir örfáum dögum varaði hann við árásinni á Falluja og sagði fullum fetum að þær aðgerðir gætu dregið úr líkum á því að þingkosningar færu fram í janúar í Írak. Og hvað er þá um yfirlýsingar ráðamanna sem segja þetta allt gert til að koma á lýðræði í Írak? Hvað er á bak við slíkar fullyrðingar? Hjóm eitt og nákvæmlega ekkert annað.

Það er auðvitað verið að sinna einhverjum öðrum hagsmunum en þeim að koma á lýðræði í Írak og nú verða ráðamenn á Íslandi bara að fara að viðurkenna það að eitthvað annað búi undir. Þessir hæstv. ráðamenn okkar Íslendinga verða líka að fara að koma fram fyrir skjöldu og segja þjóðinni hver það var sem réð ákvörðun þeirra um að setja þjóðina á lista hinna viljugu. Hver var það sem blekkti ráðamenn Íslendinga? Þjóðin á heimtingu á að fá að vita það.

Og hvert var markmiðið? Ráðamenn okkar hafa seinustu missirin reynt að telja þjóð sinni trú um að það hafi verið til að steypa Saddam Hussein af stóli af því að það var svo ægilega vont fyrir íröksku þjóðina að sitja uppi með þennan fjöldamorðingja og þjóf á þjóðhöfðingjastóli. Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra hafa reynt að slá þjóðina til óminnis hvað þetta varðar því að þessi átylla er ekki sönn. Þjóðin veit að hæstv. ráðamenn okkar reyna af veikum mætti að klóra yfir gjörðir sínar með eftiráuppdiktuðum söguskýringum. Og þetta er ekkert nýtt. Á þessu sama soði hafa aðrir þjóðarleiðtogar í kringum okkar sem glöptust á að fylgja hinni herskáu ríkisstjórn Bandaríkjanna og Bush forseta út í þetta feigðarflan líka brennt sig. Þeir eru búnir að vera á flótta undan því sem þeir gáfu sem átyllu fyrir innrásinni í upphafi.

Átyllan, ástæðan sem upp var gefin, var sú að finna gereyðingarvopn sem falin væru í Írak. Upp á það hljóðuðu allar ályktanir öryggisráðsins, ekki það að steypa harðstjórn Saddams Husseins af stóli. Það eru eftiráuppdiktaðar söguskýringar sem íslenskir ráðamenn eiga auðvitað ekki að bera á borð fyrir íslenska þjóð. Þeir eiga að kannast við orð sín. Eða munum við ekki sem í þessum sal erum eftir lýsingu hæstv. utanríkisráðherra fyrir nokkrum dögum á höllunum hans Saddams Husseins sem voru fullar af dollurum sem hægt hefði verið að kaupa fyrir mat og lyf handa hungruðum og sjúkum börnum, börnum sem dóu ekki síður vegna viðskiptabannsins á Írak en vegna þess að Saddam sat á dollarahrúgunum í höllum sínum? Nú er búið að steypa vonda karlinum af stóli, og jafnvel þó að það hefði verið ástæða innrásarinnar í Írak sem íslenskir ráðamenn studdu með yfirlýsingum sínum og háum fjárframlögum úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar — sem allir vita að var ekki — er eðlilegt að spyrja þessa ráðamenn þjóðarinnar:

Hvers vegna styðja Íslendingar áframhaldandi hernaðaraðgerðir í Írak?