Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda

Þriðjudaginn 16. nóvember 2004, kl. 14:58:38 (1537)


131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[14:58]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki hægt að hafa mörg orð á þeirri mínútu sem okkur eru skömmtuð. Formaður utanríkismálanefndar Alþingis sagði áðan að við hefðum ekki getað setið hjá. Við gátum ekki og getum ekki látið sem ekkert sé. En getum við látið sem ekkert sé þegar verið er að fremja alvarlega stríðsglæpi?

Hv. þm. sagði að það versta sem menn gætu gert í Írak væri að sýna ístöðuleysi. Eru þeir þá að sýna staðfestu sem fara núna um myrðandi í Falluja? Eru stríðsglæpamennirnir í Falluja sem eru þar á ábyrgð okkar að sýna staðfestu?