Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda

Þriðjudaginn 16. nóvember 2004, kl. 15:05:53 (1544)


131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[15:05]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru engin svör. Ég spurði einfaldlega: Telur formaður utanríkismálanefndar að við höfum fengið rangar upplýsingar, að við höfum fengið rangar upplýsingar frá meintum bandamönnum okkar? Hún svarar ekki þessari spurningu. Þetta er grundvallarspurning í málinu. Ef það er svo að við höfum fengið rangar upplýsingar og farið út í þetta hernaðarævintýri á fölskum forsendum, hvers vegna drögum við okkur þá ekki út af þessum lista? Hvers vegna erum við þá áfram á þessum ömurlega lista?

Hvernig stendur á því að háttvirtur formaður utanríkismálanefndar getur ekki komið með nein haldbær svör við því hvort hið meinta uppbyggingarstarf sé hafið í Írak nú á þessum dögum? Einu fréttirnar sem við fáum frá Írak eru fréttir af mannfalli, af sjálfsmorðssprengjuárásum, af gríðarlega harðri orrustu sem staðið hefur um eina borg í tvær vikur og sér ekki enn fyrir endann á. Endalaust mannfall, eymd og volæði, eru einu fréttirnar sem við fáum.

En stjórnarliðar í þessum sal leyfa sér að tala um að við skulum gleyma fortíðinni, hætta að tala um þessa hluti og frekar tala um uppbyggingarstarfið sem hafið er í Írak. Hvaða uppbyggingarstarf er hafið í Írak?