Samkomudagur Alþingis og starfstími þess

Þriðjudaginn 16. nóvember 2004, kl. 16:46:23 (1561)


131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Samkomudagur Alþingis og starfstími þess.

30. mál
[16:46]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Mig langar í örstuttu máli að minnast á það lagafrumvarp sem hér liggur fyrir Alþingi. Ég vil byrja á að fagna frumvarpinu sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir og Margrét Frímannsdóttir, þingmenn Samfylkingarinnar, leggja fram. Ég vil einnig sem nýr þingmaður tala örstutt um hvernig þessi heimur kemur mér fyrir sjónir og taka undir það sem aðrir nýir þingmenn hafa sagt um þann skrýtna heim sem þingmennskan er.

Það er margt furðulegt við þennan vinnustað eins og þeir sem til þekkja geta staðfest. Það er búið að nefna samkomutíma Alþingis. Á síðasta ári var gert ráð fyrir tæplega fimm mánaða sumarleyfi. Að venju er gert ráð fyrir u.þ.b. sex vikna jólaleyfi en að sjálfsögðu, eins og hv. þingmenn hafa bent á, eru einstaka þingmenn og langflestir að vinna í hinum svokölluðum leyfum. Það er því kannski ekki rétt að tala um að menn séu bókstaflega í fríi þó að eflaust séu til slík dæmi.

En þetta fyrirkomulag má, eins og hv. þingmaður Rannveig Guðmundsdóttir og fleiri hafa bent á, taka til endurskoðunar. Það hefur líka verið bent á í þessari umræðu að sex til sjö vikna frí eða leyfi skulum við kalla það frekar, í janúar, er kannski ekkert svo heppilegt, m.a. út af færð. Landsbyggðarþingmenn hafa m.a. bent á að ef janúarmánuður er hugsaður til að heimsækja kjördæmi þá er það ekki besti mánuðurinn hvað það varðar einfaldlega út af veðurfari og færð.

Það má því breyta ýmsu hér og við eigum að hugsa vinnuumhverfi okkar upp á nýtt. Það er margt sem mælir með því að samkomutími Alþingis sé lengri og jafnvel að unnið sé í styttri lotum og þá er hægt að koma til móts við þær áhyggjur sem m.a. komu fram í máli hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um aðstæður landsbyggðarþingmanna, og þá er kannski hægt að hafa lengri kjördæmavikur o.s.frv. sem nýtast betur þeim þingmönnum sem þurfa að heimsækja víðfeðm kjördæmi.

Það er annað sem mig langar að minnast aðeins á í umræðunni, það er svona innanbúðarvandamál innan þingsins og það er að blessuð dagskrá þingsins liggur aldrei fyrir fyrr en kvöldið áður og í rauninni er hún ekki sett á netið fyrr en að loknum umræðum þess dags, þannig að dagskrá morgundagsins liggur ekki fyrir núna, hún verður sett á netið um leið og umræðum í dag lýkur. Það er ekki mjög þægilegt að vinna í slíku umhverfi og það er lítið mál að setja dagskrána með þeim fyrirvörum sem þarf að gera hvað það varðar inn á netið. Við höfum oft rætt þetta, starfsfólk og þingmenn sín á milli, og það virðast allir vera sammála um þetta meira og minna þannig að ég sé ekki af hverju þetta er ekki orðið að veruleika. Það er óþægilegt að geta ekki skipulagt tíma sinn, sérstaklega í ljósi þess að margt fólk hérna er fjölskyldufólk og á jafnvel börn á leikskólaaldri og það er óþægilegt að vita ekki hvort maður getur sótt barnið sitt næsta dag klukkan fjögur eða fimm, hvernig sem það er. Maður getur í rauninni ekki gert ráð fyrir hvort þing verði búið klukkan fjögur, sex, átta eða síðar.

Í þessu sambandi þurfum við líka að hugsa annað upp á nýtt og það eru þingsköpin. Við þurfum að taka til alvarlegrar umræðu hvort við eigum að takmarka ræðutíma þingmanna við 2. og 3. umr. en hann er ótakmarkaður núna. Þetta er eitt af því sem við ættum líka að skoða og ræða þegar við hugsum vinnulag okkar upp á nýtt.

Að lokum hefði ég vonast til að sjá fleiri hv. stjórnarþingmenn taka þátt í umræðunni og sérstaklega þá stjórnarþingmenn sem eru í forsætisnefnd. Maður heyrir svona á göngunum að allir vilji breyta einhverju en það er eins og vanti einhvern herslumun. Ég bind satt að segja miklar vonir við að hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, sem mun verða forseti Alþingis á næsta ári, taki þessi mál til endurskoðunar og geri það vinnulag sem við búum hér öll við aðeins manneskjulegra, skilvirkara og betra. Það er ákveðið tækifæri með nýjum forseta og ég beini þeirri áskorun til hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur að huga að þessum málum þegar hún tekur við forsetastóli á næsta ári.