Nýr þjóðsöngur

Þriðjudaginn 16. nóvember 2004, kl. 17:45:06 (1572)


131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Nýr þjóðsöngur.

279. mál
[17:45]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að sem betur fer vantaði mig á þessa uppákomu í kirkjunni þegar hv. þm. Mörður Árnason söng einsöng. Ég geri svo sem ekki ráð fyrir að ég hafi orðið af miklu. En ég skal taka orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar til mín og passa mig á því að vera ekki of íhaldssamur.

Samt sem áður er ég er þeirrar skoðunar, þrátt fyrir að ég sé frjálslyndur í flestum málum, að ákveðnir hlutir séu heilagir, eins og t.d. þjóðsöngurinn og fáninn, og því vil ég ekki breyta, a.m.k. á meðan ekki hafa verið færð betri rök fyrir slíkum breytingum en hér liggja fyrir. Ég hef því, þrátt fyrir ágætt andsvar hjá hv. þm., enn þá sömu efasemdir uppi varðandi þetta mál og þá hugmynd um að við skiptum þjóðsöngnum okkar út, þrátt fyrir að hv. þm. Össur Skarphéðinsson treysti sér ekki til þess að syngja hann með sómasamlegum hætti. (ÖS: Jú jú.)