Villinganesvirkjun og Skatastaðavirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 2004, kl. 13:24:00 (1619)


131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Villinganesvirkjun og Skatastaðavirkjun.

123. mál
[13:24]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það var athyglisvert að fylgjast með umræðunni hér vegna þess að vandamál Skagfirðinga birtist ljóslifandi hér í þingsalnum þar sem þeir töluðu algjörlega í kross, þeir stjórnmálaflokkar sem fara með völdin í Skagafirði. Þá er ég að tala um Sjálfstæðisflokk og Vinstri græna en ég fer ekki frekar út í það.

Hv. þingmaður Steingrímur Sigfússon talar um að ég sé að stofna til illdeilna á Norðurlandi í sambandi við virkjanamál og stóriðjumál. Það er mjög ósanngjarnt að halda því fram. Það er hins vegar þannig að ýmsir hafa áhuga á stóriðjumálum á Norðurlandi og það má tala um þrjá staði í því sambandi. Ég hef lagt áherslu á að Norðlendingar verði að vinna saman að þeim málum ef þeir eiga að ná árangri.

Svo um virkjanaframkvæmdir almennt. Það er mjög auðvelt að vera bara á móti virkjunum sem slíkum því að auðvitað hafa þær alltaf einhver áhrif á náttúruna. Ef maður horfir einangrað á einhverja virkjun er maður sjálfsagt bara á móti henni. Við verðum þá að hafa í huga hvað við fáum í staðinn. Við fáum yfirleitt atvinnuuppbyggingu, að ég tali ekki um hina almennu raforkunotkun landsmanna sem kannski enginn er hreint og beint á móti.

Það eru alltaf svo margir hlutir sem við þurfum að hafa uppi á borðinu í einu þegar við erum að fjalla um þessi málefni. Ef ég á að nefna einhverja staði hér sem ég er á móti að séu yfirleitt nýttir sem virkjanakostir eru þeir svo sannarlega til. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að virkja allar virkjanlegar ár, því fer svo fjarri, en ég er almennt hlynnt því efnahagskerfisins vegna að við séum með fleiri egg í körfunni og eins vegna þess að atvinnuuppbygging á landsbyggðinni er stórmál og þessar virkjanir eru yfirleitt þar. (Forseti hringir.) Þess vegna þarf að horfa á þetta á breiðari grundvelli en margir gerðu hér áðan.