Tilraunir með vindmyllur

Miðvikudaginn 17. nóvember 2004, kl. 13:33:37 (1623)


131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Tilraunir með vindmyllur.

124. mál
[13:33]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það eru nokkur vonbrigði að ekki varð annað ráðið af svörum hæstv. ráðherra en að mjög lítið sé að koma út úr því nefndarstarfi sem undir glæstri forustu hv. þm. Hjálmars Árnasonar — sem er nokkur nefndarkóngur þeirra framsóknarmanna — var skilað árið 2003 og var með áhugaverðar tillögur um bæði leit að heitu vatni og jafnvel vindmylluuppbyggingu í Grímsey. Sögunnar vegna er rétt að fram komi að það væri þá ekki í fyrsta skipti sem vindmyllur væru í Grímsey. Þar var tilraunaverkefni um tíma þar sem vindmylla var reist og átti að hita vatn með núningsbremsu til upphitunar á húsum. Það var hið merkasta verkefni í sjálfu sér en skilaði kannski ekki miklu þegar upp var staðið.

Mér finnst samanburður við raforkuverð frá vatnsaflsvirkjunum út í hött þegar Grímsey á í hlut. Að sjálfsögðu kemur vel til greina að reisa þar vindmyllu til að keyra með dísilstöð þó að framleidd eining þar væri nokkru dýrari en úr hagkvæmustu vatnsaflsvirkjunum uppi á landi nema ráðherra sé með það í huga að tengja Grímsey við raforkukerfið en um það hef ég ekki heyrt enn þá. Frá umhverfislegu sjónarmiði t.d. væri það stórkostlegt framfaramál ef hægt væri að sinna kannski 60–80% af orkuþörf Grímseyjar með vindmyllum.