Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 17. nóvember 2004, kl. 15:36:42 (1681)


131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Vatnajökulsþjóðgarður.

121. mál
[15:36]

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Í framhaldi af góðri umræðu um Vatnajökulsþjóðgarð vil ég taka fram varðandi Langasjó, sem auðvitað tengist þessu svæði, þá staðreynd að hér áður fyrr rann Skaftá í Langasjó. Þar hafa orðið ákveðnar breytingar á náttúrufari getum við sagt en áform eru uppi um það að nýta það vatn sem er í Langasjó með því að veita honum yfir á Tungnaársvæðið með göngum og nýta þannig vatnið í gegnum allar virkjanirnar á Tungnaár-/Þjórsársvæðinu, þ.e. Sigöldu-, Hrauneyjafoss-, Búðarháls- þegar hann kemur, Sultartanga- og Búrfellsvirkjun. Ég held að við megum undir engum kringumstæðum fórna þeim miklu hagsmunum sem þar eru í húfi, a.m.k. ekki í neinu bráðræði. Við þurfum að hafa þennan möguleika opinn og skoða hann vandlega áður en honum verður fórnað.