Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 17. nóvember 2004, kl. 15:39:12 (1683)


131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Vatnajökulsþjóðgarður.

121. mál
[15:39]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að taka fyrir þetta mál sem hér um ræðir. Við erum að tala um tvær náttúruperlur sem eru í hættu af völdum mannsins, önnur þeirra vegna þess hversu aðgengileg hún er og hversu margir heimsækja hana. Hin perlan, Langisjór, er frekar óaðgengileg og í raun var ekki vitað að þetta svæði væri til fyrr en fyrir um 150 árum. Langisjór kom hvergi fram í rituðu máli fyrr en þá.

Málið er ekki vaxið á þann veg sem hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði, að veita ætti vatni úr Langasjó í virkjanir heldur veita vatninu úr Skaftá sem mun eyðileggja hina hreinu og tæru ásýnd Langasjávar. Það á að veita því í gegnum Langasjó til virkjunar og það er það sem er hættulegt.