Stofnun íþróttaakademíu í Reykjanesbæ

Fimmtudaginn 18. nóvember 2004, kl. 10:59:18 (1726)


131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Stofnun íþróttaakademíu í Reykjanesbæ.

[10:59]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni að efla eigi nám og byggja upp nýja skóla, ekki hvað síst á Suðurnesjum. Ég tek alveg undir þau sjónarmið sem hér eru lögð fram. Hins vegar er það þannig með nám á þessu stigi að það hefur hingað til farið í gegnum umræðu á Alþingi um hvernig að því skuli staðið, bæði að hinum ytri ramma og einnig hvar áherslurnar skuli þá vera í náminu. Það sem hér er til umræðu um íþróttaakademíu eða íþróttaháskóla á Suðurnesjum undir Háskólanum í Reykjavík er jú bara hluti af þessu heildarnámi Háskólans í Reykjavík og hann sendir sinn reikning, fær sitt framlag til nemenda á fjárlögum ríkisins. Þetta er ekki eins og verið sé að búa til einhverja sjálfstæða stofnun hvað það varðar, hún mun verða rekin þannig.

Jafnframt hefði verið fyllsta ástæða til að taka umræðu hér um það hvort stofna ætti hlutafélag um háskóla af þessu tagi og sem jafnframt hefur aðgang að fjármagni á vegum ríkisins. Það má ekki blanda þessari umræðu saman við það hversu nauðsynlegt er að efla nám en þetta þarf að fara hina eðlilegu leið í gegnum þingið hvað varðar fyrirkomulag og annað.

Ég bendi jafnframt á að Kennaraháskólann sem er með þetta nám á Laugarvatni vantar fjármagn til þess að geta tekið á móti nemendum og kannski nýtt fjárfestingar sínar betur. Skylda þingsins er að taka á þessu máli og ræða það heildstætt þannig að framkvæmdin verði á þá lund sem við erum sátt og sammála um. Öll viljum við efla þetta nám.