Loftslagssamningurinn og stefna Íslands

Mánudaginn 22. nóvember 2004, kl. 15:11:35 (1825)


131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Loftslagssamningurinn og stefna Íslands.

[15:11]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að það er átta sinnum meiri losun ef notuð er olía og kol í þá framleiðslu sem hér um ræðir. Það er það sem skiptir máli. Hv. þingmaður vill að það sé ekki gert, það sé haldið áfram að byggja þennan iðnað upp á grundvelli olíu og kola. (KolH: Það hef ég aldrei sagt. ...) Heldur hv. þingmaður að hún, þótt hún sé valdamikil, komi í veg fyrir það í heiminum að þessi iðnaður verði byggður upp? Telur hún að hún geti komið í veg fyrir það að ál sé notað t.d. í bílaframleiðslu, miklu léttari málmur en aðrir málmar og þar með málmur sem leiðir til orkusparnaðar? Þetta snýr allt á haus hjá vinstri grænum, því miður.