Háskóli Íslands

Mánudaginn 22. nóvember 2004, kl. 18:47:44 (1890)


131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:47]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög auðvelt að fullyrða slíkt, íslenska þjóðin er ekki eins menntuð og hún ætti að vera. Tölurnar sýna það. Nánast annar hver Íslendingur hefur einungis lokið grunnskólaprófi sem er miklu hærra hlutfall en hjá öðrum þjóðum. Að sama skapi stendur þessi 12 liða samanburður sem ég rakti í ræðu minni. Hæstv. menntamálaráðherra hrakti ekki eitt einasta atriði, allt frá frammistöðu Íslendinga í læsi og TIMSS-könnunum upp í útgjöldin til Háskóla Íslands eða stöðu framhaldsskólanna. Eftir stendur að alþjóðlegi samanburðurinn er einfaldlega sár, það er verið að þæfa umræðuna og tala um að þessar tölur séu ekki samanburðarhæfar, allt hafi breyst frá 2001 þrátt fyrir að eigin orð ráðherrans hafi staðfest að svo er ekki. Ég hélt að ég þyrfti ekki að benda frekar á það en það verður einhver að kenna hæstv. menntamálaráðherra að lesa þessar alþjóðlegu skýrslur sem koma frá OECD því að þar leynist margur fróðleikurinn sem því miður reynist hæstv. menntamálaráðherra svo sár að hún reynir að kalla menn blinda ef þeir eru ekki einfaldlega sammála henni.