Háskóli Íslands

Mánudaginn 22. nóvember 2004, kl. 18:48:51 (1891)


131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:48]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Miðað við þau orð sem hv. þingmaður lét falla áðan og miðað við þær tölur sem hann vísar í vil ég sérstaklega geta þess að við Íslendingar útskrifumst úr framhaldsskóla aðeins síðar en aðrar þjóðir. Ég vil líka geta þess að ég stefni að því sem menntamálaráðherra að stytta námstíma til stúdentsprófs sem m.a. kemur til með að hafa áhrif á þessar tölur í samanburði við OECD-ríkin. Ég ætla þá að hv. þingmaður muni ljá máls á og styðja einmitt þá fyrirætlan mína að stytta námstíma til stúdensprófs miðað við orð hans í dag.

Ég vil enn og aftur ítreka það að á bilinu 30–34 ára eru Íslendingar með háskólapróf tæp 33% meðan Danir eru um 33%, Noregur 38%, Svíþjóð 31% og Finnland 27%. Meðaltalið er tæp 25% í Evrópusambandslöndunum. Og ég spyr enn og aftur: Er þetta ekki til marks um það að við séum menntuð? Að sjálfsögðu, virðulegi forseti.