Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 20:38:44 (2002)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[20:38]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi ekki verið viðstaddur þegar ég tjáði mig um það þingmál Vinstri grænna að hækka fjármagnstekjuskattinn úr 10% upp í 18%. (SJS: Ég hlustaði á ræðu þína.) Ég veit ekki betur en að hv. þingflokksformaður Vinstri grænna hafi jafnvel að nokkru leyti tekið undir að það væri ekki hægt að fullyrða að eitthvað af fjármagninu mundi ekki streyma úr landi. Ég veit ekki um nokkurn mann sem getur fullyrt að fjármagnið mundi ekki geta fundið sér einhvern annan stað á hinu Evrópska efnahagssvæði. Ég bara fullyrði að svo sé.

Hv. þingmaður slær sér á brjóst og segist ekki hafa minnst hér einu orði á niðurskurð í vegaframkvæmdum. Það er ekki hægt að skilja þetta mál frá almennri umræðu um fjárlagafrumvarpið eða annað, allt tengist þetta. Við förum í fjáralagaumræðu næstkomandi fimmtudag. Auðvitað er það þannig að andstæðingar þeirra stóru verkefna sem nú eiga sér stað á Austurlandi, með tilheyrandi íbúaþróun, reyna að benda á svona staðreyndir. Þetta vissum við, að við yrðum að sýna aðhald í ríkisrekstri.

En ég spyr hv. þingmann: Hefur hann trú á því að ef við hefðum ekki farið þessa leið, í þessa gríðarlegu atvinnuuppbyggingu á Austurlandi, stækkun við Grundartanga og annað af því tagi, þá væri hagvöxtur jafnmikill og raun ber vitni? Sá hagvöxtur heldur uppi kaupmáttaraukningu hjá íslensku þjóðinni sem hefur verið 40% frá árinu 1995. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður hafi verið ríkisstjórninni í einu og öllu ósammála í þessum málum, t.d. um að við ættum að byggja upp álver í Reyðarfirði.

Ég spyr hv. þingmann: Trúir hann því virkilega að hagvöxtur væri jafnhár og raun ber vitni ef við hefðum ekki farið í þessar framkvæmdir?