Forvarnir í fíkniefnum

Miðvikudaginn 24. nóvember 2004, kl. 12:43:19 (2036)


131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Forvarnir í fíkniefnum.

102. mál
[12:43]

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Virðulegi forseti. Forvörnum gegn fíkniefnum á Íslandi er ábótavant. Við vitum að úrræðin eru til og við vitum líka að áhugasamt fólk er til í að vinna að forvörnunum. En því miður hafa fjárveitingarnar ekki verið nægar þrátt fyrir, eins og hér hefur komið fram, hávær kosningaloforð Framsóknarflokksins árið 1999.

Ef það skyldi vefjast fyrir þingheimi að fíkniefnavandinn sé til staðar hér á landi þá er hægt að fræðast um þau mál í bók sem heitir Sigur í hörðum heimi, sem er um Guðmund Sesar. Hún fjallar um baráttu saklauss manns og fjölskyldu hans við viðbjóðslega og lífshættulega undirheima fíkniefna á Íslandi.