Forvarnir við eldvarnaeftirlit og umhverfisvarnir

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 10:41:15 (2114)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Forvarnir við eldvarnaeftirlit og umhverfisvarnir.

[10:41]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það ber að þakka þeim sem stóðu að verki, slökkviliði, sjálfboðaliðum og öðrum þeim sem að brunanum komu og líka hæstv. umhverfisráðherra sem brást röggsamlega við. Nú svipast menn um eftir því hvar álíka viðburður geti komið upp í Reykjavík og nágrenni. Menn skoða fyrirtækin sem ekki hafa sinnt brunavörnum og beina sjónum sínum auðvitað að eigendum húsa sem ekki hafa sinnt brunavörnum heldur, enda er það í mörgum tilvikum dýrt fyrir slíka eigendur. Kannski eigum við að líta í eigin barm.

Það slys sem bíður eftir að komið sé í veg fyrir er auðvitað flugvöllurinn sem reistur var við borgarmörkin í heimsstyrjöldinni síðari. Aðflugið að honum fer ekki bara yfir þetta hús heldur yfir þá olíubirgðastöð sem hefur stað sinn tæpan kílómetra í hánorður. Nú held ég að tími sé kominn til þess, þrátt fyrir pólitískt þras og tregðu ýmiss konar stjórnvalda, að koma þessum flugvelli í burt og gera um það vandlega áætlun. Mér sýnast þær aðstæður sem skapast við það að hæstv. utanríkisráðherra og aðrir ráðherrar hafa nánast fallist á að í samningum við Bandaríkjamenn muni Íslendingar reiða fram fé til flugvallarins í Keflavík ýti flugvellinum í Reykjavík endanlega út af borðinu. Ég held að öryggismálum í Reykjavík, sérstaklega í Kvosinni og nágrannabyggðum hennar, sé þannig háttað að því fyrr sem þetta er gert, þeim mun betra.