Forvarnir við eldvarnaeftirlit og umhverfisvarnir

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 10:45:27 (2116)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Forvarnir við eldvarnaeftirlit og umhverfisvarnir.

[10:45]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka viðbrögð hæstv. ráðherra. Ég fagna þeirri úttekt sem hún ætlar að láta fara fram á öllu þessu ferli og forvarnaaðgerðum, og hvort nauðsynlegt sé að grípa til hertra laga eða reglna í því sambandi. Ég tel nauðsynlegt að umhverfisnefnd fái að fylgjast með þeirri niðurstöðu sem verður og tel reyndar rétt að umhverfisnefnd fari yfir málin og kanni líka m.a. um hvaða stofnanir og opinberar byggingar er að ræða þar sem fram hefur komið að eldvarnaeftirliti sé ábótavant. Það eru um 300 fyrirtæki og stofnanir.

Yfirvöld brunamála verða að tryggja þegar í stað að tekið verði á þeim málum og verða að fullvissa okkur um að öryggi borgaranna sé tryggt í því efni. Ég hvet umhverfisnefnd til að skoða þetta mál einnig.

Ég spurði hæstv. ráðherra einnig um viðbrögð hennar, hvort hún telji ástæðu til sérstakra viðbragða vegna þeirra 200–300 tonna af PCB-menguðum jarðvegi sem geymdur er í sekkjum á lóð Hringrásar og ekki hefur fundist leið til að farga. Hæstv. ráðherra hefur ekki enn svarað því.

Ég vildi enn fremur fá fram afstöðu ráðherrans til verkaskiptingar og skilgreiningar á ábyrgð, hvort hún sé nægjanlega skýr — sem ég held að sé ekki — milli slökkviliðs, lögreglu og almannavarna þegar stórbruna eða almannavá ber að höndum og hvort, eins og hér hefur komið fram, skýrar björgunaráætlanir liggi fyrir þegar svo er. Ég held að einnig þurfi að skýra betur, og vil láta það koma fram við þessa umræðu, verkaskiptingu milli stofnana sem heyra undir hin ýmsu ráðuneyti og fara á einn eða annan hátt með eldvarnaeftirlit svo og verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga í þessum málum.

Ég held að við eigum að nota tækifærið núna og fara yfir alla þætti þessa máls. Ráðherrann hefur sannarlega farið af stað með góð áform og ég hvet hana til að skoða málið heildstætt.