Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 12:04:47 (2131)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:04]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að háttvirtur þingmaður hafi oftúlkað orð mín svolítið. Ég held að ég hafi ekki notað þau orð að Framsóknarflokkurinn væri helsti óvinur þjóðarinnar. En ég skil vel að háttvirtur þingmaður upplifi þannig upplýsingarnar, þær staðreyndir sem ég færði fram. Það er alveg óskiljanlegt að Framsóknarflokkurinn, með svo fáa þingmenn, geti haft slík áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið.

Það liggur ljóst fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafði það í kosningastefnuskrá sinni að fara ætti þessa leið, að lækka matarskattinn. Þess vegna er með ólíkindum hve langan tíma tekur að ræða það mál milli flokkanna. Það er augljóst að á næsta ári verða engar breytingar á þessu, miðað við þær tillögur sem hér liggja fyrir, nema Framsóknarflokkurinn sé farinn að kikna örlítið í hnjánum gagnvart þessu. Og er þá kominn tími til. Það hefur yfirleitt ekki staðið á hnébeygjum hjá þeim ágæta flokki, a.m.k. þegar ákveðnir stólar hafa verið í boði.