Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 12:13:46 (2140)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:13]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stóri mismunurinn þarna er á færslunum á lífeyrisréttindunum. Það er eðlilegt, þegar við erum með reikning á greiðslugrunni, að við færum hann eins og við gerum. Um það voru allir sammála þegar við settum ný lög um fjárreiður ríkisins árið 1997. Það er því algerlega sambærilegt í alla staði. Komi til nýir samningar er það allt gjaldfært inn í fjárlagafrumvarpið en í reikningnum er það fært þar sem skuldbindingarnar falla niður.

Ríkisreikningur er byggður á samræmdum uppgjörsstöðlum Sameinuðu þjóðanna sem unnið hefur verið að í meira en 50 ár. Þetta er algerlega sambærilegt og mjög slæmt þegar menn láta að því liggja að þar sé um einhvern galdrapott að ræða, þar séu menn að hræra í einhverju og ekkert sé að marka þau uppgjör. Þau eru nákvæmlega sambærileg í alla staði. Ef menn lesa skýrslu Ríkisendurskoðunar þá kemur fram að þessir hlutir eru fullkomlega sambærilegir. Það er eðlilegt með einstakar færslur að Ríkisendurskoðun geri þar athugasemdir og ekkert við það að athuga.