Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 13:49:49 (2148)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[13:49]

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég rifja það upp hér að þegar fyrir ári síðan, bæði við 1. og 2. umr. fjárlaga fyrir árið 2004, þá var það rauður þráður í málflutningi manna að ræða um þá stefnumörkun sem þar var gerð af hálfu ríkisstjórnarinnar til langs tíma. Það var bæði gert af okkur sem fylgjum stjórninni svo og af stjórnarandstöðunni og talsmönnum hennar.

Hver var þessi stefnumörkun sem skipti öllu máli og við fórum yfir? Jú, hún fjallaði um að samneyslan í þjóðfélaginu og rekstrarkostnaður ríkisins í þjóðfélaginu skyldi ekki hækka að raungildi á árinu 2004 nema um 2% og 2,5%. Þetta var það sem við ræddum um og allir voru sammála um það bæði í stjórn og stjórnarandstöðu að þetta væri það sem skipti máli, að þetta mundi ráða úrslitum um það hvernig fram gengi með ríkisfjármálin á Íslandi.

Nú vill svo til, virðulegi forseti, að enginn minnist á þessar stærðir, ekki nokkur einasti maður. Stjórnarandstaðan heldur langar tölur, fer yfir heilu talnadálkana, en ekki er minnst á það sem allir voru sammála um að skipti öllu máli, raunaukningu samneyslunnar og raunaukningu á rekstrarkostnaði ríkisins. (Gripið fram í: Það var minnst á það.)

Hvernig má það nú vera, virðulegi forseti, að stjórnarandstaðan hefur engan hug á þessu? Það er einfaldlega vegna þess að markmið ríkisstjórnarinnar stóðust. Við erum innan þessara marka. (Gripið fram í: Hvað ár ertu að tala um?) Ég er að tala um árið 2004. Það er árið sem er að líða. Við höfum gengið frá 2. umr. fjáraukalaga og eigum ekki von á því að neinar breytingar verði á frumvarpinu frekar í 3. umr. fjáraukalaga þannig að þessar tölur liggja allar fyrir.

Vera kann, virðulegi forseti, að þetta séu stjórnarandstöðunni sár vonbrigði. Ég ætla ekki svo sem að fjölyrða um það. En af einhverju stafar þögn þeirra um það sem þeir voru þó sammála um að skipti öllu máli fyrir ári síðan? Í stað þess að tala um það sem þeir vissu að skipti öllu máli hafa menn verið að fjalla hér um allt aðrar stærðir. Mönnum hefur orðið tíðrætt um aukningu einkaneyslu á þessu ári miðað við það sem þeir ætluðu. Það er alveg hárrétt að einkaneyslan hefur vaxið hér miklu meira en við gerðum ráð fyrir í áætlunum okkar fyrir ári. Hún hefur farið upp í 7% eins og við áætlunina í dag. Það er gríðarlega mikil aukning og allir sem um það fjalla eru sammála um að ástæðan geti ekki verið nema sú ein að við höfum á mjög óvarlegan hátt verið að taka hér inn gríðarlega háar fjárhæðir í erlendum lánum sem einstaklingar hafa verið að skrifa sig fyrir.

Ég veit ekki, virðulegi forseti, hver hefur þetta á valdi sínu. Ekki hefur ríkisstjórnin þetta á valdi sínu. Ekki hefur hið opinbera nein tök á því að koma í veg fyrir þetta. Ég veit ekki hvort stjórnarandstaðan telur sig kunna einhver ráð. Hún hefur þá ekki sagt frá því. Hins vegar veit ég ekki betur en að allir sem um málið hafa fjallað hafi lýst yfir áhyggjum sínum af því að þarna sé verið að fara mjög óvarlega, að íslenskt bankakerfi sé að fara þarna af miklum glannaskap. Ég veit ekki betur en allir séu um það sammála og allir séu um það sammála líka að við getum fátt annað gert í því máli en að hvetja einstaklinginn í þjóðfélaginu til þess að fara varlega, fara ekki svo gáleysislega fram sem raun ber vitni vegna þess að ákveðin hætta felst í því, og mikil hætta fyrir einstaklinga sem eiga allar sínar tekjur og alla sína tekjumöguleika í íslenskum krónum, að skuldsetja sig í erlendri mynt. Það hefur margsinnis verið tekið fram. Það hafa allir af þessu áhyggjur. Þetta er algjörlega óviðkomandi ríkisfjármálum Íslands að öllu leyti og ég veit ekki hvernig stendur á því, hvaða nauð rekur stjórnarandstöðuna til að tala um þetta sem hluta af ríkisvandanum.

Hagvöxtur hefur hins vegar, virðulegur forseti, verið hér meiri en við gerðum ráð fyrir í áætlunum. Hann hefur verið miklu meiri. Við erum að ætla núna að hagvöxturinn verði þetta 5,5% kannski upp í 6% sem er gríðarlegur hagvöxtur, meiri en hér hefur nokkurn tíma verið lengi og meiri en er í löndunum í kringum okkur. Þetta er að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni, virðulegur forseti, en það kallar líka á það, eins og ég sagði áðan, að við skulum fara varlega og átta okkur á því að svona mikill vöxtur getur haft aukaverkanir sem við þurfum að vara okkur mikið á. (Gripið fram í: Hvaða aukaverkanir?)

Þær aukaverkanir eru, virðulegi forseti, svo ég svari nú þeirri spurningu, að það hefur sýnt sig alltaf að þegar eitt þjóðfélag vex mjög hratt þá tekst ekki að fylgja því eftir þannig að það getur valdið ójafnvægi á mörgum sviðum og er nú flókið mál að fara út í það en sjálfsagt að gera það seinna. En ég ætla mér frekar lítinn tíma til þessara ræðuhalda núna. Kannski tala ég aftur þegar líður á daginn.

En menn hafa líka í stjórnarandstöðunni verið að vekja athygli á enn einni staðreynd, þ.e. að hér er núna verðbólga sem er meiri en við ætluðum og allir hafa kveðið á um að það sé sannarlega hættumerki. En við skulum aðeins líta á þessa verðbólgu, virðulegi forseti. Hún hefur verið greind af kunnáttufólki og fyrir liggur í hverju það er fólgið að hún er hærri en við ætluðum. Meginástæðurnar eru tvær.

Fyrst eru það olíuhækkanir sem hafa gengið yfir heiminn, gríðarlegar olíuverðshækkanir, um 30%, sem enginn átti von á og enginn kann að skýra raunverulega nema sem aukna eftirspurn í heiminum. Við áttum ekki von á þessu. Þetta hefur sannarlega haft áhrif á íslenska verðbólgu.

Hinn meginþátturinn sem hefur haft áhrif á verðbólguna er mjög hækkað fasteignaverð á Íslandi. Þessi bóla, sem ég vil nú leyfa mér að kalla bólu, hefur gengið líka yfir mörg önnur vestræn ríki. Enginn kann skýringar á þessu. (Gripið fram í: Fasteignamatið hækkaði ... verulega 2001.) Ég þakka nú kærlega fyrir ábendingu virðulegs þingmanns, en hækkun á fasteignaverði er eitthvað sem markaðurinn býr til og enginn kann að skýra, hvorki á Íslandi, Bretlandi né á Norðurlöndum þar sem þessi bylgja hefur gengið yfir. Ef við lítum á breskar fréttir þá hefur þar komið fram að núna allt í einu er fasteignaverð aftur farið að síga niður í Bretlandi. Eins og fyrri daginn kann enginn skýringar á því hvers vegna það er allt í einu núna að lækka. Þetta eru því tíðindi sem við stöndum frammi fyrir og kunnum ekki skil á. Við kunnum engin skil á þessu. En hef heyrt stjórnarandstöðuna hvað eftir annað hrópa hér, virðulegi forseti: „Verðbólgan er farin úr böndunum. Verðbólgan er farin úr böndunum.“ Og menn tala um það skýrt að það hljóti að vera efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að kenna að hún sé farin úr böndunum.

Að sjálfsögðu, virðulegi forseti, er verðbólgan ekkert farin úr böndunum. Ef við tökum þessa tvo þætti frá þá er verðbólga langt fyrir neðan þau mörk sem Seðlabanki Íslands miðaði við. En við getum ekki skýrt það hvernig á þessu stendur. Við skulum vona þær gangi aftur, þessar verðhækkanir eða hækkanir á fasteignamarkaði. Við skulum vona að það gerist enda er engin skýring til á þessu. Við skulum líka vona að lát verði á hinum gríðarlegu olíuverðshækkunum sem sannarlega hafa verið erfiðar fyrir íslenskt þjóðarbú. Eigi að síður er verðbólgan þarna og hún getur valdið mjög miklum usla í okkar litla viðkvæma hagkerfi.

Ef við lítum á fjárlagafrumvarpið sem nú er til 2. umr., frumvarp til fjárlaga 2005, þá eru miklar hækkanir til velferðarmála gegnumgangandi í því, þvert á það sem stjórnarandstaðan virðist telja að passi sér að segja í nefndarálitum sínum. Hún segir að svo sé ekki, að hér sé verið að skera niður framlög til velferðarmála. Ef þeim finnst, virðulegi forseti, passa sér að viðhafa slíkan málflutning þá er það náttúrlega þeirra mál. En staðreyndirnar tala sínu máli. Við erum að hækka þar mjög mikið og það hefur verið gegnumgangandi á undanförnum árum að svo hefur verið, framlög hins opinbera til velferðarmála hafa verið að vaxa hér mjög mikið.

Við höfum sagt það og ég hef margsinnis sagt það, virðulegur forseti, að á uppgangstímum, á tímum mikillar tekjuaukningar, væri þess mjög mikil þörf að hið opinbera reyndi af fremsta megni að hemja útgjöld sín á öllum sviðum. Fyrir því eru mjög mörg dæmi að á uppgangstímum þjóðfélaga hefur ríkið aukið tekjur sínar verulega og alltaf aukið útgjöld sín um leið verulega. Síðan þegar niðursveiflan hefur komið — hún kemur alltaf í öllum þjóðfélögum — þá hefur hið opinbera átt mjög erfitt með að færa niður hin opinberu útgjöld. Þau hafa setið eftir þrátt fyrir að tekjurnar minnkuðu. Þetta er hin mikla hætta sem blasir við. Í þessa gildru hafa mjög mörg eða flest Evrópuríkin fallið á undanförnum 10–15 árum. Þetta eru víti til varnaðar. Einkaneyslan, einstaklingurinn í samfélaginu, virðist hafa miklu meiri sveigjanleika til þess að mæta tekjuminnkun en hið opinbera. (Gripið fram í: Erlend lán.) Þess ber því að gæta í þessu mjög og stefnan sem er mörkuð með þessu frumvarpi, eins og var farið hér yfir í 1. umr., hvar ég var nú ekki viðstaddur, er sú sama og fyrir ári síðan. Meginstefnan, rauði þráðurinn, er að halda samneyslunni innan við 2% að raungildi og rekstrarkostnaðinum innan við 2,5%.

Þetta er sama langtímamarkmiðið og við höfum haft. Það tókst í ár. Það liggur fyrir. Við leggjum upp með sömu ætlan á næsta ári. Það er ekkert séð fyrir endann á því. Það verður að sjálfsögðu barist. Það þarf að berjast fyrir því gegnum allt næsta ár, vetur, sumar, vor og haust. En við skulum vona að okkur takist á næsta ári svo farsællega fram að ganga sem á þessu.

Ég hef, virðulegi forseti, stundum velt fyrir mér gagnrýni stjórnarandstöðunnar og reynt að átta mig að því hvernig hún vildi standa að þessari gagnrýni sinni. Ég kemst ekki hjá að sjá að t.d. sá ágæti stjórnamálaflokkur Samfylkingin hefur brugðið á þann leik að deildarskipta sér svolítið, deildarskipta sér í þessari gagnrýni. (Gripið fram í: Er það ekki gott?) Það hefur stundum verið sagt, virðulegi þingmaður, að það sé gott að tala tungum tveim. (Gripið fram í: Nú?) Það hefur stundum verið sagt að það sé gott að tala tungum tveim, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Það er nú bara í Sjálfstæðisflokknum.) Ef við lítum á þessa deildarskiptingu þá mundi ég skipta þessu þannig að fyrsta deild væri svona deild mannúðar og sérstaklega væri það nú haft þar í huga. (Gripið fram í.) Þessi mannúðardeild kveður sér oft hljóðs hér og það er yfirleitt þannig í öllu hennar tali að það er fátt sem ekki þarf að hækka, auka, bæta og betrumbæta í velferðarkerfi Íslands og er þá ekki spurt að því hvað það kostar því örlætið á peninga skattborgaranna er náttúrlega alltaf svo mikið. Þessi deild talar svona og við þekkjum hana mjög vel og þetta er eflaust allt saman fallega meint og vel meint.

Hins vegar er önnur deild í þessari sömu Samfylkingu sem ég mundi vilja kalla: Ungir og glöggir. (Gripið fram í: Ungir og ...) Þeir vilja hafa dálítið annan hátt á þessu í gagnrýni sinni og vilja vera dálítið ábyrgir stundum. Þeir fara stundum ofan í OECD-tölur og benda á hvernig hlutirnir séu þar. Ég hef svolítið gaman af þessu. Í deild mildinnar og mannúðarinnar er alltaf verið að tala um að stórlega vanti í heilbrigðis- og félagskerfið, stórkostlega mikið, og það vanti þetta og hitt o.s.frv. En í deildinni ungir og glöggir hafa þeir ekki viljað fallast á það að við Íslendingar séum sú þjóð sem hefur mest aukið framlög til menntamála á umliðnum árum. Þegar þeir standa frammi fyrir þeirri staðreynd að samkvæmt OECD-skýrslunum er Ísland í fjórða sæti þeirra þjóða sem leggja hvað mest af mörkum í þetta þá er þetta dálítið óþægilegt. Hinir ungu og glöggu taka því skýrslu OECD þar sem við erum í fjórða sæti en benda hins vegar á að við séum yngsta þjóðin í Evrópu (Gripið fram í.) og vegna þessa þá beri að hliðra þessum tölum OECD, þ.e. miðað við að við séum svo ung þjóð og margir séu hér á skólaaldri þá beri að hliðra tölunum yfir í aldurssamsetninguna og þannig fá þeir út að við séum alls ekkert í fjórða sæti heldur einhver staðar í miðjunni hjá OECD.

Ég hef ekki skoðað þessa útreikninga hjá ungum og glöggum, (Gripið fram í.) en ég reikna með því að þetta sé bara rétt. Ég treysti þeim alveg til þess að reikna þetta rétt. Mér finnst þetta virðingarvert af þeim vegna þess að statistík hefur einn tilgang. Hún hefur þann tilgang að segja sögu. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að setja aldurssamsetninguna inn í þetta og umreikna töluna. Ef við treystum þeim þá er það rétt að við þurfum að auka hér framlög til menntamála og æðri menntunar, vísinda og rannsókna, heilmikið. Mér þykir vænt um þessa gagnrýni. Hún er athyglisverð.

En lítum nú aðeins á heilbrigðismálin. Þá kemur í ljós að þetta er sama þjóðin. Aldurssamsetning þessarar þjóðar er nefnilega alveg hin sama þótt við tökum þann málaflokk. Við þekkjum það og það liggur alveg fyrir í heilbrigðisfræðunum hver kostnaðurinn er miðað við hvað menn eru gamlir. Það liggur alveg fyrir, nákvæmlega, hver er kostnaðarhlutur 70, 71, 75 ára, 80 o.s.frv. Við þekkjum þetta alveg hreint.

Nú skulum við nota reikningsaðferð hinna ungu og glöggu og hliðra tölunum um heilbrigðismálin yfir í það að þetta er svona ung þjóð. Hvað skyldi nú koma þá í ljós? Þeir hafa ekki gert það, vinir mínir, vegna þess að þeir eru svona tillitssamir (Gripið fram í.) við hina deildina þarna, mannúðar og mildi, þannig að þeir hafa ekki gert það. En ég geri þetta fyrir þá. Þá kemur í ljós að kostnaður okkar við heilbrigðismál er hvað? Hann er langt, langt fyrir ofan allt sem þekkist í OECD. Við erum langt fyrir ofan. Við erum sko í miðjum fjöllum, langt fyrir ofan.

Þetta skulum við hafa til marks, einmitt þessar reikningsaðferðir, og gera okkur grein fyrir því að við erum með kostnað sem er óásættanlegur, allt of mikinn kostnað í heilbrigðismálunum sem segir okkur að eitthvað hljóti að vera að því skipulagi sem þar er. Það er ekkert að læknunum eða hjúkrunarkonunum og sjúklingarnir eru jafnveikir hér og erlendis. Þetta er mjög fínt fólk og það er unnið hér mjög vel og það er mikil tækni hér og mikil kunnátta o.s.frv. (Gripið fram í: ... skipulag?) Þetta skipulag er því nokkuð sem við þurfum að horfast í augu við. Við eigum ekkert endilega til að rífast um það milli stjórnmálaflokka heldur vera menn til þess að gera okkur grein fyrir því að þarna er gríðarlegur kostnaður á ferðinni sem við eigum og verðum að fara í gegnum og reyna að hemja og átta okkur á því að við eigum að ná sama árangri með minni peningum. Þetta er viðfangsefni okkar. Þetta er að vaxa hjá okkur, vaxa hjá okkur mjög víða. Við eigum að horfast í augu við þennan kostnað og gera okkur grein fyrir því að okkur ber að leita leiða til að ná honum niður.

Eitt atriði í fjárlagafrumvarpinu 2005 er ég hræddur við. Ég er hræddur við að það séu ekki nógu miklir peningar settir í það miðað við reynslu tveggja síðustu ára. Það eru framlögin til Tryggingastofnunar ríkisins vegna örorku. Ég er dauðhræddur um að að þessu leyti sé fjárlagafrumvarpið of veikt. Þá skulum við horfast í augu við þetta. Hvað hefur verið að gerast á tveim síðustu árum? Jú, örorka hefur verið að vaxa á Íslandi um 7 prósentustig hvort árið um sig — 7 prósentustig. Eigum við bara að horfa á þetta og segja, allt í lagi, þetta er bara svona, eða eigum við að reyna að átta okkur á því hvert viðfangsefnið er sem okkur ber að sinna?

Ég held að bæði embættismenn og stjórnmálamenn séu feimnir við að tala um þetta. Þeir eru feimnir við að tala um þetta og það er rangt hjá þeim vegna þess að það er þverpólitísk samstaða um það á Íslandi og hefur verið það lengi að við viljum svo sannarlega standa vel að verki til þess að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi. Samhjálpin er samgróin öllum íslenskum stjórnmálaflokkum. Þegar slíkur vöxtur hleypur í einhvern málaflokk eins og í örorkuna þá er ástæða fyrir okkur að staldra við og reyna að átta okkur á því hvort rétt geti verið sem sumir halda fram, að þessi málaflokkur sé að vaxa svo mikið vegna þess að hann sé misnotaður. Getur það verið rétt? Ef það er rétt þá er það stórhættulegt vegna þess að ef menn komast upp með að misnota samhjálpina þá erum við að grafa undan því þjóðfélagi sem við viljum byggja upp. Þá erum við erum að grafa undan því. Þess vegna verðum við að horfast í augu við það, átta okkur á því, að þetta er ekki eins og við viljum hafa það, þora að tala um það og þora að leita leiða sem geta komið í veg fyrir að svo haldi fram sem horfir. Þetta er alvarlegur hlutur. Við eigum alveg að þora að tala um hann. Það er nauðsynlegt. Orð eru til alls fyrst.

Ég get sagt um fleiri atriði í þessu frumvarpi að ég sé óánægður með kostnaðinn. Ég er mjög óánægður með þessa óendanlega miklu peninga sem við erum alltaf að færa til utanríkisþjónustunnar. Ég skil þetta ekki. Ég bara botna hvorki upp né niður í því að við séum að eyða svona miklum peningum og það hvarflar að mér að þarna sé um ofmetnað hinnar litlu þjóðar að ræða. Við erum 300 þúsund manna þjóð. Við erum með svo lítið hagkerfi að þó það gangi vel þá sjáumst við ekki nema í míkróskópi heimsins ef einhver ætlaði að taka eftir okkur. Ég held að við séum að ofmetnast. Ég les texta sem stendur með fjárlagafrumvarpinu um að nú ætlum við að fara að bjóða okkur fram til öryggisráðsins. Ég les þann texta og ég reyni að leita mér upplýsinga um hvað þetta muni nú kosta á endanum. Menn eru að segja mér að það gæti farið svona í 800–1.000 milljónir. Svo spyr ég líka eftir því hvar sem ég reyni að koma hvaða möguleikar séu nú á að við verðum kosnir. Þá segja allir: „Enginn. Það kýs okkur enginn. Þetta er bara vitleysisframboð.“ Það segja mér allir. Við erum að berjast þarna á móti Tyrklandi og við erum að berjast á móti Austurríki.

Þó við höfum góða og metnaðarfulla embættismenn í utanríkisráðuneytinu sem vilja sannarlega Íslandi allt hið besta þá er full þörf á því að Alþingi sem hefur fjárlagavaldið reyni að stramma hina góðu embættismenn af og segja að takmörk séu fyrir því hvaða peninga við höfum og hvernig við viljum verja þeim.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, af því að töluvert hefur verið komið inn á þær skattalagabreytingar sem voru hér til umræðu í gær, að ég tel þær skattalagabreytingar mjög þarfar einmitt til þess að gera það sem ég sagði áðan, hemja tekjur ríkisins á uppgangstímum, gefa svigrúm fyrir atvinnulífið, gefa svigrúm fyrir fólk og fyrirtæki. Ríkið á að draga saman seglin eins og það getur. Þær hafa alls ekki í för með sér að við séum að minnka neina velferðarþjónustu eða að fyrirliggjandi sé að við viljum skera hana niður. Það er enginn vilji til þess og engin áform um það. Hins vegar er æskilegt að aukning ríkisútgjaldanna verði hægari á komandi árum en hún hefur verið. Við þurfum að reyna að stuðla að því. Það á að vera það markmið sem við setjum okkur og við eigum að tala um það af fullri hreinskilni vegna þess að það markmið hefur það í för með sér að við stuðlum að því að hér sé það þjóðfélag sem við höfum barist fyrir, þjóðfélag frelsis, þjóðfélag sem leitar til mjög mikils ávinnings, efnahagslegs ávinnings og mikillar velferðar þegna sinna.