Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 17:01:42 (2186)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:01]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þessi málflutningur hæstv. heilbrigðisráðherra er ekki boðlegur. Það er alveg ljóst hvað í samkomulaginu var fólgið, hvort sem það var skriflegt eða handsalað. Það var alveg ljóst í huga hæstv. heilbrigðisráðherra 27. nóvember á síðasta ári þegar hæstv. ráðherra segir svo í DV, með leyfi forseta:

„Það er ljóst að það vantar þarna upp á og miðað við þá peninga sem ég hef, 1 milljarð króna, get ég ekki farið í nema tvo þriðju núna.“

Það þarf ekkert að deila um þetta, frú forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að það er hæstv. heilbrigðisráðherra sem skilgreinir þarna samkomulagið svo að 1 milljarður nemi tveimur þriðju hlutum samkomulagsins. Þá þýðir það samkvæmt einföldum útreikningi að það vantar 500 millj. kr. Er þetta einhver allt annar heilbrigðisráðherra sem er að tala hér, en sá sem talaði við DV 27. nóvember í fyrra?