Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 17:17:38 (2198)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:17]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Við 2. umr. fjárlaga vil ég taka undir það sem félagar mínir í meiri hluta fjárlaganefndar hafa sagt í dag að það er mikilvægt að áfram takist að halda góðum og traustum böndum á ríkisfjármálunum. Það hefur gengið vel á undanförnum árum og miðað við útlit næstu ára, ef litið er til efnahagskerfisins með fyrirsjáanlegri þenslu vegna stórframkvæmda og aukinna umsvifa í atvinnulífinu mun það takast. Það er mikilvægt að með ríkisfjármálum sé efnislegum stöðugleika viðhaldið.

Það liggur fyrir að þær umfangsmiklu framkvæmdir sem standa yfir núna munu reyna á þanþol hagkerfisins næstu ár. Við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í efnahags- og ríkisfjármálum hefur í vaxandi mæli verið horft til lengri tíma en eins árs í senn. Ríkisstjórnin hefur lagt fram langtímamarkmið sín varðandi ríkisfjármálin og það er ljóst að sú stefna sem birtist þar, og nauðsynlegt er að verði fylgt eftir, mun hafa afgerandi þýðingu fyrir þróun efnahagslífsins. Það varðar því framtíðarhagsmuni þjóðarinnar að vel takist til í þessum efnum.

Það er ljóst að á næstu árum eigum við Íslendingar mikla möguleika á að halda áfram að sækja fram með það að markmiði að treysta efnahagslega stöðu okkar. Við munum halda áfram að efla og byggja upp atvinnulífið og treysta innviði samfélagsins á mörgum sviðum. Hagvöxtur hefur verið meiri hér en annars staðar miðað við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við og kaupmáttur almennings hefur aukist um 40%, frá árinu 1995. Afrakstur þessa alls getum við nýtt til að treysta velferð þjóðarinnar og sækja fram í samfélagi þar sem þekking og færni skiptir sköpum og á þeirri braut getum við verið áfram, ef vel er haldið á málum. Auk þess þurfum við að hlúa að þeim traustu stoðum sem menning okkar og búseta í landinu hafa skapað í gegnum tíðina.

Hæstv. forseti. Aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum er ekki einungis mikilvæg forsenda fyrir stöðugleika í efnahagsmálum næstu árin, heldur einnig fyrir framgang lækkunar skatta. Nú eru skattalækkunartillögur ríkisstjórnarinnar komnar fram og strax á næsta ári verða skattar lækkaðir um 1% og á árunum til 2007 um 3% til viðbótar.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmann afsökunar, en ég ætla að óska eftir betra hljóði í salnum. Þótt hér séu ekki margir, þá er kliðurinn mikill.)

Hæstv. forseti. Þakka þér fyrir og ég vil endurtaka, að á næsta ári verða skattar lækkaðir um 1% og árunum til 2007 um 3% til viðbótar. Það er eðlilegt að skattar lækki við þær aðstæður sem við búum við í dag. Skattalækkun kemur öllum sem greiða skatta til góða. Eignarskattar verða afnumdir, sem kemur eldra fólki, sérstaklega þeim sem eru um og yfir 60 ára, hvað best. Þetta eru þeir skattar sem að mínu mati hafa verið hvað ranglátastir, það eru eignarskattarnir. Barnabætur verða auknar til mikilla muna og verða samkvæmt fjárlögum næsta árs 5.600 millj. kr.

Ef þróun barnabóta á kjörtímabilinu er skoðuð þá má sjá að barnabætur hafa hækkað um nærri 38%. Áætlað er að á næsta ári muni þær verða 5,6 milljarðar, eins og ég gat um áðan. Ef hækkunin er borin saman við vísitölu neysluverðs, en vísitala neysluverðs hefur hækkað um 19,7%, þá þýðir það að barnabætur hafa hækkað nær tvöfalt á við vísitöluna. Það er mjög mikilvægt að halda þessu til haga þegar stjórnarandstaðan sakar okkur um að fara illa með barnafólk.

Hæstv. forseti. Um 60% af útgjöldum ríkisins ganga til heilbrigðismála, almannatrygginga, velferðarmála og fræðslumála. Þetta eru einnig þeir útgjaldaflokkar sem mestar sviptingar eru um á hverju ári, enda eru þetta meginstoðir í samfélagi okkar. Við búum við einstaklega sterkt velferðarkerfi hér á landi.

Við umfjöllun fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga hafa nefndinni borist nú, eins og á mörgum undanförnum árum, fjölmörg erindi um fjárframlög til ýmissa verkefna á vegum einstaklinga, félagasamtaka, sveitarfélaga og stofnana. Það er ljóst að því miður er ekki mögulegt að verða við nema hluta þeirra erinda. Það kemur því í hlut fjárlaganefndar að forgangsraða, velja og hafna. Við slíkar aðstæður verður ekkert hafið yfir gagnrýni. Um allt land er unnið að mörgum mjög athyglisverðum verkefnum sem vert væri að styðja við. Við afgreiðslu erinda að þessu sinni hefur sérstaklega verið tekið tillit til ákveðinna þátta.

Eins og undanfarin ár höfum við lagt mikla áherslu á endurbyggingu og varðveislu gamalla húsa og uppbyggingu safna. Slík verkefni falla vel að menningartengdri ferðaþjónustu, en á hana hefur verið lögð mikil áhersla á undanförnum árum, og sá mikli uppgangur sem hefur verið á landinu öllu hefur komið ferðaþjónustunni mjög til góða. Við verðum að leggja okkur fram um að varðveita menningararfinn sem er okkur afskaplega mikilvægur. Við höfum því miður glatað of miklu af menningarverðmætum okkar, og slíkt má ekki henda framvegis. Þessar fjárveitingar hafa orðið hvatning og lyftistöng fyrir félög, byggðir og sveitarfélög um allt land og hefur verið afskaplega ánægjulegt að fylgjast með hvernig verkefni hafa dafnað í gegnum árin. Þetta kemur einnig fram í fjölmörgum heimsóknum til nefndarinnar á þessu hausti.

Nú var mjög góð samstaða með húsafriðunarsjóði varðandi úthlutanir fjármagns til endurbyggingar gamalla húsa og hefur framkvæmdastjóri húsafriðunarsjóðs, Magnús Skúlason, lagt mat sitt á umsóknirnar og komið með góðar tillögur í þeim efnum. Ég vil aðeins nefna nokkur dæmi um þau 31 verkefni um allt land sem fjárlaganefnd hefur lagt til að verði meðal tímabundinna verkefna. Ég ætla aðeins að taka nokkur dæmi af handahófi.

Norska húsið í Stykkishólmi, Vatneyrarbúð á Patreksfirði og Duushús í Reykjanesbæ fá hæsta styrkinn, eða 5 milljónir hvert. Ég vil einnig nefna Faktorshúsið á Djúpavogi, Húsavíkurkirkju, gamla kaupfélagshúsið á Breiðdalsvík, Brydebúð í Vík, Kaupangur á Vopnafirði, Tryggvaskála á Selfossi, gamla prestssetrið á Útskálum. Ég ætla að láta hér staðar numið, en öll þessi verkefni fá einhvern hluta af því fjármagni sem þau hafa beðið um.

Í kaflanum um landbúnaðarráðuneyti eru fyrirhleðslur. Fjárlaganefnd gerir tillögu um að 11,6 millj. kr. hærri upphæð verði bætt við til fyrirhleðslna og sá liður verður þá 56,1 millj. kr. Á fjáraukalögum ársins 2004 er gert ráð fyrir 15 millj. kr. til fyrirhleðslna við Kotá í Öræfum, en þar er mikil hætta á skemmdum á mannvirkjum og landi vegna vatnavaxta. Vatnsmagn árinnar hefur aukist vegna hnignunar jökulsins og því stafar hætta af landbroti þar.

Þess má geta að aldrei hefur verið lagt eins mikið til fyrirhleðslna í landinu eins og nú er gert.

Mikið hefur verið rætt um heilbrigðismálin hér í dag og þess má geta að hækkun á milli ára nemur um 8,5 milljörðum kr. í þennan málaflokk, en þar eru launa- og verðlagsbætur um 4 milljarðar kr. Starfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss hefur verið að styrkjast. Þar hefur náðst framleiðniaukning og í mörgum sérgreinum eru nú engir biðlistar, en í öðrum er bið sem er talin viðunandi.

Í mörgum ræðum í dag hefur verið rætt um fjölgun örorkulífeyrisþega. Það er á engan hátt verið að gera lítið úr öryrkjum eða dylgja um þá, en það liggur fyrir og það er áhyggjuefni að fjölgunin hefur verið tæplega 40% á fimm árum, frá árinu 1998. Heildarbætur vegna öryrkja og endurhæfingar lífeyrisþega, hafa á sama tíma hækkað úr rúmlega 5 milljörðum í rúmlega 12 milljarða kr. Sérstaka athygli vekja breytingar á aldursskiptingu og kynjahlutföllum öryrkja. 63% fleiri konur á aldrinum 25–29 ára eru öryrkjar nú en fyrir fimm árum, svo dæmi sé tekið.

Það vekur líka athygli hvað öryrkjum hefur fjölgað mismunandi eftir landshlutum á tímabilinu. Þetta að verður að skoða, á þessu hlýtur að vera einhver skýring.

Í greinargerð Tryggingastofnunar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, er velt upp ýmsum mögulegum skýringum, en heilbrigðisráðherra hefur, eins og hann gat um hér áðan, falið forstöðumanni Hagfræðistofnunar að grafast fyrir um ástæður mikillar fjölgunar öryrkja og endurhæfingarlífeyrisþega og sú skýrsla mun liggja fyrir í upphafi næsta árs.

Að mínu mati verður að skoða hvað veldur þessu, hvers vegna svo margar ungar konur eru úrskurðaðar öryrkjar. Ég held að sérstaklega verði að skoða hvort um kerfislægan vanda sé að ræða. Að sjálfsögðu verður að skoða hvert samspil lægstu launa, fjárhæðar atvinnuleysisbóta og lífeyrisgreiðslna er. Það verður að skoða þessi mál mjög gaumgæfilega og taka á þeim, því þetta er vissulega áhyggjuefni. Það er hvorki öryrkjum né öðrum í hag að svo margt ungt fólk dæmist öryrkjar í dag.

Eitt er það verkefni sem fjárlaganefnd hefur sérstaklega haft áhuga á í gegnum tíðina. Það eru símenntunarstöðvarnar á landinu og fjarkennslan. Stöðvarnar eru núna níu á landinu öllu og fær hver um sig 9,5 millj. kr. Fjarnám og símenntun hefur verið mikið áhugamál fjárlaganefndar og það verkefni hefur skipt sköpum fyrir marga sem hafa stundað nám á heimilum sínum í gegnum fjarskiptabúnað og sótt skóla fjarri heimabyggð sinni gegnum tölvusamskipti. Það er eitt af þeim verkefnum sem við í fjárlaganefnd erum afskaplega hreykin af og ánægð með.

Ég vil geta þess að gerð er tillaga um að veita sérhverri náttúrustofu 5 millj. kr. tímabundið framlag til rannsóknarverkefna. Það er til viðbótar við fasta upphæð þeirra. Náttúrustofurnar eru í Neskaupstað, Vestmannaeyjum, Bolungarvík, Stykkishólmi, Sauðárkróki, Sandgerði og Húsavík. Allar þessar náttúrustofur eru með ákveðin rannsóknarverkefni. Fjárlaganefnd leggur til að þær fái 5 millj. kr. tímabundið framlag til rannsóknarverkefna sinna.

Ég sé ekki ástæðu til að fara frekar yfir þessi mál. Álit nefndarinnar hefur verið til umræðu í allan dag. Ég vil að lokum þakka meðnefndarmönnum í fjárlaganefnd samstarfið. Það hafa verið teknir upp nýir hættir í fjárlaganefnd, nýir vinnuhættir þar sem stjórn og stjórnarandstaða koma saman að því að útdeila safnliðunum. Ég þakka þeim sem unnu með mér þar fyrir afskaplega gott samstarf og nefndarmönnum öllum.