Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 17:34:49 (2200)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:34]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu stend ég við tillögur ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna og mun því ekki greiða tillögu Samfylkingarinnar atkvæði.

Ég deili áhuganum á matarskattinum með hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Ég hef oft sagt úr þessum ræðustól að ég vildi lækka matarskattinn. Að því er verið að vinna í ríkisstjórninni og standa yfir viðræður um það.

Hv. þingmaður ræddi um beingreiðslur til bænda. Ég vil taka það fram að þær koma neytendum mjög til góða. Ég vil geta þess að mjólkurverð hefur ekki hækkað í landinu eða mjólkurafurðir í þrjú ár. Í þrjú ár samfellt hafa mjólkurvörur ekki hækkað til neytenda. Það hlýtur að koma öllum til góða.

Hvað varðar framlag til Bændasamtakanna þá tel ég að þar sé um svolítinn misskilning að ræða. Inni í því eru greiðslur sem bændur borga sjálfir til Bændasamtakanna, inn og út. Þannig að það er oft tekið með, öll þau gjöld sem bændur greiða fara inn í fjárlögin og út úr þeim aftur til Bændasamtakanna og til annarra verkefna.

Ég vil halda því til haga að mjólkurvörur hafa ekki hækkað í landinu til neytenda mörg undanfarin ár.