Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 17:36:40 (2201)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:36]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hv. þingmaður fara svolítið í vörn fyrir þessa liði sem ég nefndi í fjárlögunum. Það er alveg óþarfi því að þessir liðir eru hér og skýrt hvernig þeir skiptast.

Hvað varðar Bændasamtök Íslands þá er allt það fé, 433 millj. kr. greitt beint úr ríkissjóði. Þetta skiptist í: Leiðbeiningarstarfsemi, landsþjónustu; Leiðbeiningarstarfsemi, héraðsþjónustu; Búrekstraráætlanir, Búfjárrækt. Síðan eru hér aðrir liðir, eins og hv. þingmaður segir, þar sem um er að ræða greiðslur frá bændum, þ.e. greiðslur inn og út. En þá stendur í fjárlögunum eins og hv. þingmaður veit, innheimt af ríkistekjum. Það eru allt aðrir liðir en þarna er um að ræða. Þannig virðast Bændasamtök Íslands fá 433 millj. kr. greiddar beint úr ríkissjóði til að reka þessi hagsmunasamtök.

Ein lítil spurning í restina til hv. þingmanns: Hvaða álit hefur hún á því að ráðuneytin hafi annað árið í röð bannað forstöðumönnum, eftir því sem ég best veit, að hafa samband að fyrra bragði við fjárlaganefnd varðandi fjárlagabeiðnir?