Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 17:41:18 (2204)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:41]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að við höfum mikinn áhuga á atvinnumálum kvenna. Þeim sjóð var komið á þegar hv. þingmaður var félagsmálaráðherra. Ég starfaði lengi í þeim sjóði, í bakhópi. Það var skemmtilegt starf. Sjóðurinn hefur alltaf haft úr litlu að spila en fjármunirnir hafa nýst afskaplega vel. Þeir hafa nýst vel konum sem hafa verið að byrja í frumkvöðlastarfi. Því miður hefur sjóðurinn þó ekki alltaf gengið alveg út. Hins vegar voru gerðar breytingar á honum fyrir nokkrum árum. Það var eftir þingsályktunartillögu sem ég lagði fram á Alþingi.

Það verður alltaf að hafa í huga að þessi sjóður mun aldrei hafa úr mjög miklu að spila, ekki 150 millj. kr. eins og sótt hefur verið um í hann. Úr honum hafa verið veittar lágar upphæðir. Það má heldur ekki veita slíkan stuðning á sviðum þar sem um er að ræða samkeppni og því hefur oft orðið að henda út af borðinu verkefnum á sviðum þar sem ríkt hefur samkeppni. En sjóðurinn er góður og ég hef lagt mitt til þess að hann fengi að vera þarna áfram. Gjarnan mundi ég vilja hafa upphæðirnar hærri en ég bendi á að hjá Byggðastofnun er líka sjóður sem nýtist til ýmissa verkefna.

Hvað varðar Fæðingarorlofssjóð þá hefur hann rýrnað vegna þess að miklu fleiri feður fara í fæðingarorlof en gert var ráð fyrir. Það er gott og mjög ánægjulegt að sjóðurinn hafi orðið til þess að mikill fjöldi feðra taki fæðingarorlof. Við vorum vöruð við því af ýmsum aðilum þegar við vorum að afgreiða þessi mál að það yrði að setja þak á greiðslur úr sjóðnum.