Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 17:46:52 (2207)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:46]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum alveg sammála um það, ég og hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir, hve umsvif símenntunarstöðvanna hafa aukist ár frá ári og aukning nema er gríðarlega mikil. Ég held að hv. fjárlaganefnd hafi gert eins vel og hægt er með því að bæta í þennan málaflokk á hverju ári, þó ekki hafi það verið stórar upphæðir, en eitthvað þó. Nú eru þetta nærri 10 millj. kr. Ég tel að námið þurfi endurskoðunar við í menntamálaráðuneytinu, það þarf að skilgreina námið upp á nýtt og skoða það betur.

Ég held að sumir hverjir sem fara á námskeið eigi kannski að borga meira í því sjálfir. Það finnst mér umhugsunarvert. Verkalýðsfélögin hafa greitt fyrir sína aðila, eins gætu fleiri félagasamtök gert það til að aðstoða fólk við að afla sér meiri menntunar. Það er mjög ánægjulegt til þess að vita hve fjarnámið hefur haft mikið að segja fyrir fólk, ekki bara úti á landi heldur líka í Reykjavík, t.d. eru 60% nema í Kennaraháskóla Íslands í fjarnámi. Það er mjög athyglisvert. Þetta finnst mér vera mjög mikilvægt og er rós í hnappagatið hjá íslenska ríkinu að geta boðið upp á svona mikið fjarnám.