Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 17:53:31 (2212)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:53]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir hleypur undan á handahlaupum. Ég minni á að ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem bundnar eru hvað mestar vonir við og er vaxandi. Ég tel að það sé ekki rétt forgangsröðun að lækka skatta um milljarða kr. en skera niður þessar litlu fjárveitingar til ferðaþjónustunnar. Ég minni á ályktanir frá Ferðamálasamtökum Íslands, frá stjórn og aðalfundi þeirra á Kirkjubæjarklaustri nú nýverið, þar sem þau skora á stjórnvöld að endurskoða afstöðu sína og lýsa í greinargerð sinni hversu fáránlegt og skammsýnt það er að skera niður þann litla grunnstuðning sem ferðaþjónustan fær. Grunnstuðningurinn er einungis um 250 millj. kr. Við reynum að reka upplýsingamiðstöðvar víða um landið. Þær eru fjársveltar en þar liggja atvinnumöguleikarnir.