Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 17:56:04 (2215)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:56]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Helsta ástæðan fyrir því að ég kem í pontu er til þess að mæla fyrir tillögu sem við flytjum, ég og formenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins, og rökstyðja frekar. Ég fyrir hönd Samfylkingarinnar að sjálfsögðu. Þar er tillaga nr. 1 að hækka beri framlag til örorkulífeyris um 560 millj. kr. Það er ekki að ófyrirsynju.

Mér finnast tíðindi dagsins eftir umræðuna vera þau að það liggur alveg ljóst fyrir að Framsóknarflokkurinn hefur svikið það loforð sem hann gaf öryrkjum fyrir kosningar. Framsóknarflokkurinn hefur í dag orðið uppvís að því að reyna að kaupa sér atkvæði með því að lofa framlögum til öryrkja fyrir kosningar sem hann hefur svikið með afgerandi hætti eftir kosningar. Mér varð ekki ljóst hversu áberandi og augljós svikin voru fyrr en ég hlýddi á hæstv. heilbrigðismálaráðherra halda ræðu sína í dag og svara okkur þingmönnum stjórnarandstöðunnar.

Hæstv. félagsmálaráðherra hélt því fram algjörlega blákalt að hann hefði gert samkomulag við forustu Öryrkjabandalagsins sem fæli í sér útgjöld fyrir ríkissjóð upp á 1.000 millj. kr. Það voru færð að því óyggjandi rök í dag að það samkomulag var upp á snöggtum hærri upphæð og ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að Framsóknarflokkurinn er að svíkja loforð og samkomulag við öryrkja. Það er ekki bara hæstv. heilbrigðisráðherra sem er uppvís að því, það er líka hæstv. forsætisráðherra, formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson.

Það kom fram í umræðunni í dag að hæstv. heilbrigðisráðherra bar sig saman við formann Framsóknarflokksins áður en hann handsalaði samkomulagið við Öryrkjabandalagið. Morgunblaðið birti degi síðar en það handsal átti sér stað útfærslu sem það fékk frá hæstv. heilbrigðisráðherra þar sem kom alveg skýrt fram hvaða upphæð öryrki af tilteknum örorkuflokki ætti að fá. Þegar það er reiknað saman er alveg ljóst að heildartalan sem fólst í samkomulaginu var 1.500 millj. kr. Það hefur líka komið fram í yfirlýsingum hæstv. félagsmálaráðherra að hann gerði sér mætavel grein fyrir heildartölunni.

Hæstv. heilbrigðisráðherra gaf þá yfirlýsingu í ræðustóli í andsvari við hv. þm. Helga Hjörvar fyrir u.þ.b. tæpu ári. Jafnvel þó hæstv. heilbrigðisráðherra muni ekki eftir þeirri yfirlýsingu getur hann lesið sér til um hvað hann sagði í fjölmiðlum um svipað leyti. Fram kemur í fjölmiðlum þessa dagana, þar sem forustumenn öryrkja eru að rifja upp loforð og samkomulagið sem hæstv. heilbrigðisráðherra gerði við þá og Öryrkjabandalagið, hvað hæstv. heilbrigðisráðherra lofaði. Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði í DV 27. nóvember 2003, ég leyfi mér að vitna orðrétt í það sem haft er eftir hæstv. ráðherra innan gæsalappa, með leyfi forseta:

„Það er ljóst að það vantar þarna upp á og miðað við þá peninga sem ég hef, 1 milljarð kr., get ég ekki farið í nema 2/3 núna.“

Það liggur því alveg ljóst fyrir að hæstv. heilbrigðisráðherra gekk ekki gruflandi að því hvað samkomulagið sem hann hafði gert við öryrkja kostaði hið opinbera. Hann segir það í beinni tilvitnun að 2/3 af því kosti 1.000 millj. kr. Þá er ekki hægt að álykta annað en hann hafi að sjálfsögðu gert sér grein fyrir því að 3/3, þ.e. upphæðin öll, væri 1.500 millj. kr.

Hann getur með engu móti komið hingað og haldið því fram að samkomulagið sem hann gerði við öryrkja hafi verið upp á lægri upphæð en það. Það er ekki hægt. Allt annað er brot á þeim orðum sem hæstv. ráðherra lét falla í viðræðum við Öryrkjabandalagið. Morgunblaðið er sannferðugt vitni í þessum efnum. Það var Morgunblaðið sem birti ekki bara fréttatilkynninguna sem hæstv. ráðherra í samráði við formann Framsóknarflokksins sendi frá sér deginum eftir að samkomulagið var gert, heldur birti það líka útfærslu sem það fékk frá ráðuneyti hæstv. heilbrigðisráðherra. Ef menn fara í gegnum það og reikna það út er ekki hægt að reikna sig að lægri upphæð en 1.500 millj. Það er kannski tilefni þess að Morgunblaðið, sem ekki er hægt að ásaka fyrir að vera beinlínis andstætt þessari ríkisstjórn, segir í leiðara fyrir ríflegum mánuði, frú forseti. Ég vitna beint, með leyfi forseta:

„Kjarni málsins er sá að ríkisstjórnin gerði samkomulag sem flestir töldu að markaði tímamót í samskiptum hennar og öryrkja eftir áralangt stríð og málarekstur fyrir dómstólum. Samninga sem gerðir eru ber að efna.“

Frú forseti. Þetta eru áhrínsorð. Þetta eru orðin sem hæstv. heilbrigðisráðherra ætti að taka til sín. „Samninga sem gerðir eru ber að efna.“ Það fyrsta sem dóttur minni sex ára var kennt í grunnskóla þegar hún byrjaði þar á þessum vetri var að „orð verður að efna“. Það sem maður lofar verður maður að standa við. Hæstv. heilbrigðisráðherra lofaði þessu. Hann lofaði öryrkjum þessari upphæð eftir að hafa ráðfært sig við formann Framsóknarflokksins og ég get ekki, sama hvernig ég lít á þetta, hversu vinsamlega sem ég reyni að skoða þau orð sem hæstv. heilbrigðisráðherra lét falla hér í dag, komist að annarri niðurstöðu en þeirri að þarna sé Framsóknarflokkurinn að brjóta loforð. Hann er að brjóta samkomulag við öryrkja. Það heitir á hreinni og tærri íslensku svik. Þetta er ekki hægt að túlka öðruvísi en sem svik við öryrkja.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur komið hér í dag og fært sér ýmislegt til málsbóta. Hann hefur m.a. bent á þá staðreynd að öryrkjum hefur fjölgað. Öryrkjum hefur á síðustu árum fjölgað um 7% á ári. Það er hægt að leiða ýmsar tilgátur fram til að skýra þá fjölgun. Vissulega hefur hún í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkisstjórnina. Það mætti t.d. benda hæstv. heilbrigðisráðherra, og félagsmálaráðherra væri hann staddur hér líka, á að sú staðreynd að langtímaatvinnuleysi hefur mjög aukist undir þessari ríkisstjórn kynni að eiga þátt í því að öryrkjum fjölgar líka. Þetta er líka eitt af því sem við skulum skoða saman, reyna að grafast fyrir um orsakir og helst að breyta þessu samfélagi þannig að fólk lendi ekki í því að verða óstarfhæft sökum örorku.

Það breytir ekki hinu, frú forseti, að samkomulagið sem hæstv. ráðherra gerði verður að standa. Það þýðir ekki fyrir hann að benda á það að öryrkjum hafi fjölgað. Ég tek það skýrt fram að ég held því ekki fram að hæstv. ráðherra hafi sagt eða haldið því fram að menn misnotuðu það kerfi. Sú fjölgun er samt samkvæmt flokkunum og skilgreiningu þeirrar stofnunar sem hæstv. ráðherra fer fyrir þannig að hann getur ekki vísað til útgjaldaaukningar þar og sagt að vegna þess hafi hann ekki fjármuni til að standa við loforð. Eins og menn kenna í grunnskólum landsins: Orð skulu standa, maður efnir það sem maður lofar.

Hér er líka, frú forseti, komið að grundvallarágreiningi millum stjórnar og stjórnarandstöðu. Hvernig ber að verja þeim fjármunum sem hið opinbera hefur úr að spila? Er það þannig að á tímum velsældar eins og núna, þegar ríkisstjórnin telur að hún geti á einu kjörtímabili lækkað skatta sem svarar til 39 milljarða — það er hin uppreiknaða fjárhæð þegar maður leggur saman allar þær skattalækkanir sem eiga að koma fram á þessu kjörtímabili — að hægt sé að ráðast í slíkt á annan vænginn og segja síðan: Nei, því miður, ég hef ekki meiri peninga til að standa við það sem ég lofaði öryrkjum? Það held ég ekki, frú forseti.

Ég rifja það upp að hér hefur í dag komið fram hjá þremur talsmönnum Framsóknarflokksins að ekki verður ráðist í skattalækkanir ef það kostar niðurskurð á hinu félagslega velferðarkerfi. Ef skattalækkanirnar verða til þess að ekki verður hægt að standa við samkomulag við öryrkja segi ég: Ég vil ekki slíkar skattalækkanir. Ég styð engar skattalækkanir ef þær þýða að það þurfi að ráðast í niðurskurð á hinu félagslega öryggisneti sem við höfum saman ofið. Ef það ber að skilja hæstv. heilbrigðisráðherra svo að hann geti ekki annað en svikið samkomulag við öryrkja vegna þess að hann og hið opinbera þurfi að taka fjármuni og nota til skattalækkana segi ég: Hingað og ekki lengra. Þá segjum við í stjórnarandstöðunni: Við tökum ekki þátt í slíku. Það er heldur ekki í samræmi við þau orð sem hafa fallið frá hv. þingmönnum Framsóknarflokksins hér í dag. Þess vegna segi ég það: Orð skulu standa.

Hæstv. ráðherra verður að koma með betri skýringar ef hann ætlar að láta annað liggja eftir þessa umræðu en þá ályktun sem við höfum dregið, að Framsóknarflokkurinn hafi svikið orð sín við öryrkja. Það má ekki gerast. Þess vegna flytjum við þessa tillögu, sá sem hér stendur og formenn hinna stjórnarandstöðuflokkanna. Við viljum fyrir okkar parta ekki bera ábyrgð á því að hið opinbera efni ekki loforð sitt við öryrkja.

Umræðan hefur að ýmsu leyti snúist út í umræður um skattalækkanir. Eins og ég sagði áðan nema þær skattalækkanir sem ríkisstjórnin leggur núna fram, og tengjast að sjálfsögðu umræðu um fjárlög, allt 39 milljörðum á þessu kjörtímabili. Það er sjálfsagt að ráðast í skattalækkanir ef það er hægt án þess að það leiði annað tveggja til niðurskurðar á öryggisnetinu sem hefur einkennt hið íslenska velferðarsamfélag eða þá til óhóflegrar þenslu sem gæti komið stöðugleika í efnahagsmálum úr jafnvægi. Ég er sannfærður um að það er ekki vilji þeirra sem að þessari skattalækkun standa að gera hið síðarnefnda. Ég hef hins vegar hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins grunaða um græsku þegar kemur að velferðarkerfinu.

Ég heyrði það á máli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar fyrr í dag að það á að nota þessar skattalækkanir sem skrúfu til að þrýsta mönnum í niðurskurð á ríkisútgjöldum. Á síðustu árum hefur vissulega orðið gríðarleg þensla á útgjöldum ríkisins en það er vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra hefur einfaldlega ekki reynst starfi sínu vaxinn. Hann hefur ekki getað staðið í ístaðinu á þessum miklu velmegunarárum. Þar hefur allt lekið út í margvíslegan óþarfa, eins og oft hefur komið fram. Hvernig ætla Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn að bregðast við þegar kemur að því sem talsmenn og forustumenn beggja flokkanna hafa sagt að gerist hér 2007, 2008 og 2009, að það slakni á efnahagslífinu, slakni á tekjum ríkisins? Hvernig ætla þeir þá að standa bæði undir minnkandi tekjum skattkerfisins og núverandi stöðu velferðarkerfisins? Annað hvort hlýtur undan að láta. Þetta er sú græska sem ég gruna hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins um, að þeir ætli sér og séu meðvitað að nota þessar skattalækkanir til að setja skrúfu á velferðarkerfið og þau útgjöld sem því fylgja.

Í umræðu af þessu tagi eiga menn að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir. Ef þetta er tilgangurinn, segið það þá, drengir góðir og stúlkur góðar. Segið það þá og við skulum rökræða það. En menn eiga ekki að ráðast á velferðarkerfið bakdyramegin og undir einhverjum allt öðrum merkjum, eins og hv. þm. Sjálfstæðisflokksins eru að gera núna. Ég óttast að þeir sigli hér undir fölsku flaggi og séu búnir að breiða yfir nafn og númer. Þeir eru í reynd að búa hér til stöður til þess að gera áhlaup á velferðarkerfið þegar fram í sækir en þeir gera það undir því yfirskini að nú séu þeir bara að lækka skatta af því að efnahagslífið stendur með svo miklum blóma.

Það er að því leyti rétt að efnahagslífið stendur vel núna. Það eru miklar framkvæmdir í landinu og hið opinbera fær miklar tekjur. Af hverju stafar það? Að sjálfsögðu af þessari veltu út af þessu miklu tekjum en líka vegna þeirrar miklu einkaneyslu sem þeir áttu sjálfir ekki von á þegar menn voru að spá t.d. fyrir um þróun hagstærða í upphafi kjörtímabilsins. Menn áttu ekki von á því að hér yrði gríðarleg lántaka framkvæmd í útlöndum til að standa undir miklum viðskiptahalla sem að helmingi til stafar af aukinni einkaneyslu. Ég ætla ekki að fara að deila um þær breytingar sem hafa orðið á fjármálamarkaði og hafa vissulega fært mörgum, fólki af minni kynslóð og niður úr, miklu meiri möguleika til að koma yfir sig góðu þaki, yfir eigin höfuð og fjölskyldu sinnar. Ég er þeirrar skoðunar að það sé óhjákvæmileg þróun. Hún er ekkert séríslensk. Hún fylgir bara og er í takt við þá þróun sem við sjáum erlendis og það sem er að gerast hér er í rauninni ekkert annað en það sem jafnaðarmenn og sjálfstæðismenn og ýmsir aðrir sem hafa viljað aukið frelsi í efnahagslífinu hafa óskað eftir og predikað árum saman, þ.e. að hér komi upp samkeppni í fjármálalífinu þar sem erlent fjármagn, erlendur banki, keppir við hið innlenda. Ég lít svo á að eins og útrásarþróun íslenskra fjármálastofnana hefur verið, þó að þær heiti enn þá íslenskum nöfnum og séu með íslenskar kennitölur, séu þær í reynd orðnar alþjóðlegar. Við sjáum núna fram á jákvæðar afleiðingar sem stafa af samkeppni á fjármálamarkaði. Ég fagna henni.

Ég segi það hins vegar að þessi þróun hefur, a.m.k. tímabundið, leitt til verulegrar aukningar á einkaneyslu og það er parturinn af þessum miklu tekjum í samfélaginu. Ég spyr auðvitað þá ágætu þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem neita því að þeir séu að nota þessar skattalækkanir til að búa sér til stöðu, til að ráðast að velferðarkerfinu síðar meir: Hvernig ætla þeir að fjármagna hið opinbera og standa undir breyttu skattkerfi þegar þetta skeið er frá? Þegar það gerist sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafa báðir sagt í þessum umræðum síðustu daga að muni gerast eftir nokkur ár, þegar það kemur slaki, tekjur ríkisins minnka, veltan í samfélaginu verður minni. Þá hlýtur eitthvað undan að láta. (BjarnB: Afgangurinn.)

Frú forseti. Einn af hinum ungu þingmönnum Sjálfstæðisflokksins kallar fram í: Afgangurinn. Ég tek það svo að hv. þm. sé að tala um afganginn af ríkissjóði. Hann kinkar kolli til merkis um að svo sé. En hvað er að marka áform og áætlanir Sjálfstæðisflokksins, jafnvel á góðum degi, jafnvel þegar hann er í stuði, jafnvel þegar allt gengur vel, um afgang af ríkissjóði? Hvað er yfirleitt að marka Sjálfstæðisflokkinn þegar hann er að tala um þróun hagstærða? Ekki neitt. Þær glansmyndir sem sjálfstæðismenn hafa dregið upp á hverju hausti og barið miklar bumbur í fjölmiðlum hafa aldrei reynst pappírsins virði.

Ég verð að rifja það upp af því að ekki eru liðin tvö ár frá því að hv. þm. Bjarni Benediktsson kom inn á þing og hann man þess vegna kannski ekki sökum þingæsku það langt aftur í tímann að engar af áætlununum sem hæstv. fjármálaráðherra hefur sett fram um afgang af ríkissjóði hafa gengið eftir. Ekki ein einasta. Engin. Hæstv. fjármálaráðherra hefur gert ráð fyrir því í fjárlögum frá árinu 2000 til 2003 að hér yrði samtals afgangur af ríkissjóði um 75 milljarðar.

Hvernig hefur það endað? Því hefur lyktað með að hæstv. fjármálaráðherra hefur setið með halla upp á 10 milljarða í fanginu. Það er eftirtekjan, frú forseti. Það er þróunin sem hv. þm. Bjarni Benediktsson ætti að hafa áhyggjur af ef það er í afgang af ríkissjóði sem hann ætlar að sækja þetta.

Má svo benda hv. þingmanni líka á það, kannski af því að hann þjáist af tímabundnu minnisleysi um þetta, að hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að afganginn ætti að nota í allt annað, ætti að nota í að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Þá getur auðvitað hv. þm. sagt: Það er fleira til í þessu. Það er hægt að selja eignir. En menn selja ekki eignir mjög lengi til að standa undir rekstri ríkisins. Þar að auki held ég að hv. þm. Sjálfstæðisflokksins séu búnir að selja flest það sem hægt er að selja. (Gripið fram í: O, nei ...) O, nei, kallar einn hinna ungu þingmanna fram í og ég sá í augum hans speglast orð eins og Landsvirkjun. Ekki veit ég um það, frú forseti.

Ég er einungis að slá hérna ákveðna varúðartóna. Ég er að segja það sem ég held. (Gripið fram í.) Ég kem til dyranna eins og ég er klæddur í þessu efni. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn sé að nota þetta til að seilast inn í framtíðina og setja skrúfu á velferðarkerfið. Ég óttast það. Ég óttast að hann sé með þessu að setja þrýsting á að hér verði farið út í óhóflega einkavæðingu á ýmsum félagslegum hlutum þegar kemur inn í framtíðina, t.d. eins og á grunnskólum, sem ég veit að margir hv. þm. Sjálfstæðisflokksins eru miklir baráttumenn fyrir. (BÁ: Hvað með heilbrigðiskerfið?)

Frú forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson kallar fram í: Hvað með heilbrigðiskerfið? Þá kemur að þeirri umræðu sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hóf hér í dag um heilbrigðiskerfið og var að mörgu leyti merkileg. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson benti á þá staðreynd að ef tekið er tillit til aldurssamsetningar þjóðarinnar eyðum við líklega einna mest innan OECD, næstmest að ég hygg, til heilbrigðismála. Það speglar einungis þá staðreynd að í gegnum tímann höfum við byggt upp heilbrigðiskerfi þar sem menn hafa ekki verið að eyða peningum á réttum stöðum í heilbrigðiskerfinu. Menn hafa ekki gripið í hemla á ýmsum stöðum þar sem hægt hefði verið. Ég minnist þess að hæstv. heilbrigðisráðherra flutti hér ákaflega snjalla tölu á vormánuðum þar sem hann var að kynna afrakstur nefndar sem hafði vélað um þróun lyfjaverðs. Hæstv. ráðherra sýndi t.d. fram á að þegar menn skoðuðu 40 stofnanir, minnir mig, innan heilbrigðiskerfisins, hafði þróun lyfjaverðs verið ákaflega mismunandi. Þar sem verðið hafði hækkað mest á árunum frá 1999–2003, hafði það hækkað um 102%, en uppi á Skaga, þar sem það hafði hækkað minnst hafði það hækkað um 13%. Hver var munurinn á Skagastofnuninni og hinum sem hækkuðu mest? Jú, þar var sérstakur starfshópur, sérstakt teymi innan borðs sem reyndi að haga lyfjanotkun og lyfjamálum innan stofnunarinnar með þeim hætti að sem skilvirkast væri. Í kjölfar þess lagði nefnd hæstv. ráðherra fram tillögur í 25 liðum sem áttu að geta sparað milljarða.

Maður hlýtur þá að spyrja, sérstaklega hv. þm. Sjálfstæðisflokksins sem hafa talað hér eins og þeir hafa gert hér, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson í dag: Af hverju var ekki farið í þetta löngu fyrr? Af hverju var ekki farið í svona löngu fyrr? Við vitum t.d. að mjög stóran hluta af þeim tilvikum sem bráðaþjónustur stóru spítalanna hafa verið að sinna, mætti sinna með öðrum og ódýrari hætti í frumheilsugæslunni, í heilsugæslustöðvunum. Af hverju hafa menn ekki gert það? Af því að sú heilsugæsla hefur ekki verið fyrir hendi. Ég tek það þó fram til þess að vera sanngjarn við hæstv. heilbrigðisráðherra, að það er alveg rétt hjá honum að á síðustu árum hafa menn í vaxandi mæli verið að setja byttu undir þennan leka, t.d. með því að hafa opið á heilsugæslustöðvum fram eftir degi og fram á kvöld og líka með einkareknum þjónustum eins og Læknavaktinni. Og bara svo það komi alveg skýrt fram hjá mér þá er ég þeirrar skoðunar að einkarekstur, sem í mínum huga er töluvert annað en einkavæðing, eigi rétt á sér innan heilbrigðiskerfisins og geti leitt til skilvirkari meðferðar á fjármunum. Ég hlakka t.d. til að sjá þá niðurstöðu sem verður eftir einhver ár í rekstri útboðinnar heilsugæslu í Salahverfi í Kópavogi, vegna þess að ég er þeirrar trúar að það skili árangri og tel að þar sé um að ræða breytingu sem við eigum að taka upp víðar.

Það er hægt að fara miklu betur með peninga í heilbrigðiskerfinu eins og menn vita. Það eru múrar milli ráðuneyta sem gera það að verkum að hæstv. heilbrigðisráðherra á erfitt með að rýma ákveðnar deildir á þeim spítölum sem hann hefur yfir að ráða vegna þess að ef það er gert þá eru þeir sem þar eru og beinlínis þurfa ekki á sjúkrahúsþjónustu að halda en þurfa vistun komnir undir væng annars ráðuneytis og þá eykst kostnaðurinn þar og það er ákveðinn múr, fyrirstaða. Þetta er mál sem við þekkjum.

Frú forseti. Ég gæti auðvitað farið í ákaflega löngu máli yfir ýmislegt sem er í þessu frumvarpi. Umræðan hefur óhjákvæmilega snúist töluvert um skattalækkanirnar. Það er rétt að það komi alveg skýrt fram að við í Samfylkingunni teljum að það sé ákveðið svigrúm til skattalækkana. Við teljum að það sé bæði vegna þess að það er vöxtur í efnahagskerfinu nú um stundir, eins og ég hef skýrt, en sömuleiðis má ekki horfa fram hjá þeirri staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hefur, með dyggri aðstoð þeirra ungu þingmanna flokksins sem settust inn á þing eftir síðustu kosningar, staðið í stórfelldum skattahækkunum. Á síðasta ári stóðu þessir ágætu menn og ríkisstjórnin öll fyrir því að skattar voru hækkaðir um sennilega 4 milljarða þegar allt er tekið. Ef maður reiknar þetta út kjörtímabilið eru það fast að því 15–16 milljarðar. Ég man ekki alveg hvenær sumir þeirra tóku gildi, en þetta er a.m.k. drjúgur partur af þeirri skattalækkun sem á að færa fólki á kjörtímabilinu.

Við höfum sagt alveg skýrt að við styðjum ekki þá lækkun skattprósentunnar sem hér er verið að berjast fyrir. Það felur í sér ójöfnuð. Það leiðir til þess að hátekjumennirnir fá miklu meira í sinn hlut en lágtekjufólkið. Þegar maður skoðar skattkerfisbreytingarnar sem ríkisstjórnin er að beita sér fyrir á næsta ári t.d., þá er það aðallega tvennt sem upp úr stendur, það er verið að lækka hátekjuskatt um helming og það er verið að lækka skattprósentuna með flötum hætti, þannig að hátekjumenn, alvöru hátekjumenn fá 10–12 sinnum meira í krónum talið í sinn vasa en lágtekjufólkið. Þetta er ekki réttlæti sem við í Samfylkingunni berjumst fyrir. Við styðjum þetta ekki.

Hins vegar er það alveg klárt að við lítum svo á að hækkun barnabóta sé mjög jákvæð og af hinu góða. Við styðjum það. Ef það er svo að þingmenn Framsóknarflokksins vilji auka félagslegt réttlæti, eins og a.m.k. tveir þeirra hafa sagt hér í dag, hvernig stendur þá á því að ekki er hærri upphæð til hækkunar barnabóta? Hvernig stendur þá á því að hún kemur til framkvæmda að fullu síðar en t.d. afnám eignarskatta? Það hafa engar skýringar komið á því.

Ef Framsóknarflokkurinn vill auka félagslegt réttlæti og vill auka jöfnuð, þá styður hann tillögu stjórnarandstöðunnar um að láta aukningu barnabóta koma fram að fullu fyrr en gert er ráð fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við styðjum barnabæturnar.

Við í Samfylkingunni leggjum líka sérstaka áherslu á aðra skattaaðgerð sem við teljum að sé langheppilegasta aðgerðin vegna þess að allir njóta hennar, hún eykur jöfnuð. Það er lækkun matarskattsins. Við höfum lagt það fram sem okkar helsta baráttumál að lækka matarskattinn. Með því að lækka virðisaukaskatt á þeim brýnu lífsnauðsynjum sem er að finna í öðru skattþrepi eða lægra skattþrepinu, úr 14% í 7%, lækkum við matarkostnað íslenskra heimila um 5 milljarða á ári. Það munar um minna. Þessi aðgerð lækkar líka neysluvísitöluna um 0,8%. Það munar um minna þegar við borð liggur að verðlagsþróun sé þannig að forsendur kjarasamninga bresti. Þetta leiðir líka til þess að skuldabyrði Íslendinga lækkar.

Það sem skiptir þó mestu máli er að þeir sem hafa svo lágar tekjur að þeir borga varla nokkurn tekjuskatt njóta aðgerða eins og þessara, þeir njóta lækkunar matarskattsins jafnvel hlutfallslega betur en hinir sem hafa hærri tekjur. Það skiptir máli. Þessi aðgerð nær til allra. Hinn jákvæði ávinningur af því að lækka matarskattinn sytrar út um allt samfélagið til allra þegnanna. Það þurfa allir að kaupa sér kjöt, mjólk, brauð, grænmeti, ávexti og mjölvöru ef þeir ætla sér að lifa. (SJS: Eru grænmetisæturnar …?) Þetta felur líka í sér grænmeti, hv. þm., þannig að Samfylkingin og stjórnarandstaðan sjá fyrir þörfum allra. Það er auðvitað andstætt hv. þm. stjórnarliðsins.

Auðvitað er grátlegt að hlusta á ágætan þingmann, eins og hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, koma hingað og lýsa því yfir að í hjarta sínu finnist honum þetta vera mjög jákvæð skattaaðgerð og hann vilji styðja skattalækkun af þessu tagi, og hann lýsir því með ærlegum hætti hvernig þetta hafi verið eitt af helstu baráttumálum hans stjórnmálaflokks. En hvað kemur þá í veg fyrir það? Hv. þm. lýsti því líka hér í dag, hann sagði: Við erum ærlegir í samstarfi, við erum í samstarfi við annan flokk. Það er sá flokkur sem kemur í veg fyrir að hægt sé að lækka matarskattinn um helming. Það er Framsóknarflokkurinn sem kemur í veg fyrir að ráðist sé í að lækka matarkostnað íslenskra fjölskyldna, íslenskra heimila um 5 milljarða á ári. Það gerist á sama degi, frú forseti, og fregnir berast af því að verið sé að setja sérstaka könnun í gang af Evrópusambandinu til þess að skoða orsakir hás matarverðs, ekki síst í Noregi og Íslandi þar sem það er 52% hærra en innan Evrópusambandsins.

Frú forseti. Gæti nokkuð verið betra fyrir það fólk sem hefur úr litlu að spila, sem hefur lítið fyrir sig að leggja í dag, en einmitt að lækka dýrtíðina sem er á íslenskum matvælum? Að sjálfsögðu ekki. Auðvitað er grátlegt að sá flokkur sem sendir talsmenn sína hingað upp í löngum runum til þess að segja að þeir vilji félagslegt réttlæti, þeir vilji aukinn jöfnuð, leggst flatur og þver gegn því að þetta sé samþykkt. Ég er viss um að hæstv. heilbrigðisráðherra mun kveðja sér hljóðs þegar að minni ræðu lokinni og útskýra hvers vegna Framsóknarflokkurinn er á móti því að lækka matarskattinn.