Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 18:36:34 (2223)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:36]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Síðasti liður spurningarinnar var ósanngjarn vegna þess að stjórnarandstaðan hefur ekki lagt til að útgjaldastigið verði hækkað. Þau útgjöld sem við leggjum til hér, t.d. við fjárlögin, stjórnarandstaðan, eru dekkuð með tillögum á móti um niðurskurð eða auknar tekjur. Það er einfaldlega staðreynd. Því er ekki hægt að halda þessu fram.

En hugsanlega hafði ég rangt fyrir mér, frú forseti. Það getur vel verið að hv. þingmaður hafi ekkert verið svekktur yfir því að það kunni að vera of mikil þensla í vændum Ég tek fram að við höfum líka lagt til ákveðnar skattalækkanir og við teljum ekki í Samfylkingunni að efnahagslífið fari á hliðina út af þessu. Gæti verið að hv. þingmaður sé svekktur út af því að glansmyndirnar sem dregnar hafa verið upp hafa reynst vera algjörlega bara nákvæmlega það, þ.e. bara myndir á glans og ekkert undir þeim?

Áætlanir fjármálaráðherra um 75 milljarða afgang á ríkissjóði enduðu í 10 milljarða halla. Áætlanir um útgjöld brustu svo svakalega að frá 2000–2003 fóru ríkisútgjöldin 23,8 milljarða að meðaltali á ári fram úr áætlunum.