Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 18:43:26 (2228)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:43]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemdir eða staldra við tvennt í ræðu hv. þingmans. Það er í fyrsta lagi að hann lýsir yfir áhyggjum af því að skattalækkanir sem nú eru lagðar fyrir þingið verði notaðar í framtíðinni til þess að vega að velferðarkerfinu. Ef ég tók rétt eftir þá hélt þingmaðurinn því fram að vegið hefði verið að velferðarkerfinu undanfarin ár.

Af þessu tilefni vil ég spyrja hann að tvennu. Í fyrsta lagi: Hafa ekki útgjöld til heilbrigðis- og tryggingamála aukist um tugi milljarða á undanförnum árum eins og blasir við mér þegar ég les fjárlögin nokkur ár aftur í tímann? Hefur það ekki einmitt verið að gerast?

Í annan stað: Er þá ekkert svigrúm til skattalækkana eins og Samfylkingin er sjálf að leggja til?

Hitt atriðið sem ég vildi gera athugasemd við er það hvernig hv. þingmaður fer með samanburð á fjárlögum og niðurstöðum ríkisreiknings. Ég kem kannski aðeins betur inn á það í síðara andsvari mínu.