Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 19:39:23 (2235)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:39]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru þá kannski ekki svo voðalegir glæpir sem núverandi ríkisstjórn og ráðuneyti Davíðs Oddssonar hafa unnið á þessu þjóðfélagi á undanförnum einum og hálfum áratug. Annars hefði maður haldið það á málflutningi hv. þingmanns.

Það sem hefur gerst er þetta: Mjög vel hefur tekist til um efnahagsstjórn á Íslandi. Ísland hefur aukið hlut sinn meira en aðrar þjóðir. Það hefur fært Íslendingum betri og meiri kaupmáttaraukningu en aðrar þjóðir hafa haft. Það er fagnaðarefni.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kemur hér reglulega og heldur grátræður um það hvílík voðaleg hægrimennska sé hér á ferðinni, það sé verið að færa Ísland yfir á eitthvert bandarískt svæði, einhver óskaplegur kapítalismi. Svo kemur í ljós þegar maður talar við hann að hann átti jú þátt í því sjálfur, hv. þingmaður, og hefur víst opnað sjálfur gjaldeyrisviðskiptin við útlönd.

Það er rangt sem kom fram hjá honum í ræðu hans, að enginn hafi nefnt að það væri hættumerki vegna skuldsetningar Íslendinga á undanförnum árum. Menn hafa gert það við hvert tækifæri. Ég hef t.d. sagt það margsinnis í ræðustól, sagt það í blöðum, útvarpi og sjónvarpi að það þyrfti að gjalda varhuga við því hvað væri að gerast á Íslandi. Allir sem ég þekki í pólitískri forustu hafa gert það. Það er rangt hjá honum að við höfum ekki áhyggjur af því. Það eiga allir og hafa allir áhyggjur af því vegna þess að bankar á Íslandi og íslenskur almenningur fer óvarlega, sannleikurinn er bara sá. Það þýðir ekkert fyrir hv. þingmann að koma hér og segja að ríkisstjórn Íslands beri ábyrgð á einhverjum sérstökum glannaskap. Við höfum opnað þetta land og það kostar okkur það að við verðum að gæta okkar í hverju fótmáli. Það er ekki þannig að ríkisstjórn Íslands eða eitthvert stjórnvald á Íslandi geti staðið hér og passað upp á hvern einasta Íslending. Þetta land er frjálst og menn bera ábyrgð á sjálfum sér.